Jóhannes lét útbúa leigusamning eftir á: Er tvísaga um greiðslur

Athugun Samherja á gríðarlegu magni skjala og tölvupósta vegna starfsemi dótturfélaga fyrirtækisins í Afríku hefur ekki leitt í ljós nein gögn eða samskipti sem renna stoðum undir þær fullyrðingar Jóhannesar Stefánssonar, sem komu fram í fréttaskýringaþættinum Kveik, umfjöllun Stundarinnar eða bókinni Ekkert að fela, að mútur til embættismanna, ættingja þeirra og vina í Namíbíu hafi verið faldar með ýmsum hætti, svo sem leigusamningum, „að fyrirskipan Samherja“. 

Viljinn hefur fengið aðgang að umtalsverðu gagnamagni frá Samherja, m.a. tölvupóstsamskiptum Jóhannesar þegar hann var við störf í Afríku. Margt af þeim samskiptum er ekki að finna í tölvupóstum þeim sem hann afhenti Wikileaks, en tengjast þó beint þeim málum sem hann vísar til. 

Samtímagögn benda hins vegar til þess að um sé að ræða greiðslur sem hann hafi einn haft aðkomu að og hafi haldið upplýsingum um þær frá stjórnendum Samherja. Jafnvel eftir að fyrirspurnir bárust frá höfuðstöðvum fyrirtækisins með beiðni um skýringar. 

Í Fréttablaðinu á föstudag kom fram að Samherji hefur afhent blaðinu tölvupósta sem gefa til kynna að lögmaður fyrirtækisins og stjórnandi hafi ekki vitað um meintar mútugreiðslur til dómsmálaráðherra Namibíu. 

Jóhannes Stefánsson hafði haldið því fram, að greiðslur Kötlu Seafood til ERF 1980 árið 2014 hafi verið til að fá kvóta frá Fishcor, ríkisreknu sjávarútvegsfyrirtæki í Namibíu, á afslætti. Í umfjöllun Kveiks kom fram að fjármunirnir enduðu í vasa Sacky Shang­hala, fyrr­ver­andi dóms­mála­ráð­herra Namib­íu, og James Hatuikulipi, stjórnanda Fish­cor. Þeir hafa báðir verið handteknir vegna málsins ásamt Bernhardt Esau, fv. sjávarútvegsráðherra Namibíu.

Gögn sem Viljinn hefur séð, sýna ótvírætt að enginn þeirra stjórnenda sem Jóhannes hefur borið sakir á um vitneskju og skipulagningu greiðslnanna fengu upplýsingar um samninginn eða greiðslurnar. Hvorki árið 2014 eða 2015. Það sýna samskipti milli Jóhannesar og Örnu McClure lögmanns Samherja skýrt, en hún óskaði eftir öllum þjónustusamningum, þ.m.t. leigusamningum, við þriðju aðila en Jóhannes upplýsti ekki um þennan samning. Þessar upplýsingar er hins vegar ekki að finna í gögnum Wikileaks því engir póstar eru þar frá þessu tímabili.   

Hins vegar benda samtímagögn til þess að fyrirspurnin frá endurskoðanda hafi orðið til þess að Jóhannes lét útbúa leigusamning aftur í tímann til þess að skýra greiðslurnar, löngu eftir að hann framkvæmdi þær sjálfur.

Stangast það á við fullyrðingar Jóhannesar um að hann hafi aðeins verið að fylgja fyrirmælum þegar kemur að umræddum greiðslum og stjórnendur í höfuðstöðvum Samherja á Íslandi hafi ekki aðeins vitað um ólögmætt athæfi hans í Afríku, heldur einnig skipulagt það og gefið um það beinar fyrirskipanir.

Athygli vekur að Jóhannes gefur misvísandi skýringar á umræddri greiðslu eftir því hvort hann ræðir um hana við fréttamenn Kveiks eða Al Jazeera. 

Í Kveik segir hann greiðsluna hafa verið vegna öflunar kvóta hjá Fishcor, en í umfjöllun Al Jazeera segir hann sömu greiðslu hafa farið til forseta Namibíu að beiðni Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. 

Þor­steinn Már Bald­vins­son og Kristján Vil­helms­son eru aðaleigendur Samherja.

Al Jazeera tiltekur raunar að engar upplýsingar sanni þær fullyrðingar að forsetinn hafi fengið umrædda greiðslu. Skoðun Viljans sýnir heldur engin tengsl Þorsteins Más við hana, enda ekkert sem bendir til þess að hann hafi haft hugmynd um hana.

Í Kveik og umfjöllun Stundarinnar var fullyrt að fyrirliggjandi gögn töluðu sínu máli. Engu að síður virðist nú ljóst að mjög mikið af gögnum hafi vantað í umfjöllunina. Virðist margt benda til þess að fjömiðlamennirnir hafi einfaldlega tekið orð Jóhannesar um þetta efni trúanleg og hann sé því eina heimildin fyrir þessum fullyrðingum. 

Samherji hefur ekki tjáð sig mikið efnislega um framkomnar ásakanir, en hefur þó þegar vísað tveimur þeim helstu alfarið á bug með gögnum. Í fyrsta lagi varðandi langhæstu fjárhæðina en ásökun varðandi Cape cod nam yfir 9 milljörðum.  Og svo núna eina af mikilvægari ásökunum sem varðar ætlaða mútugreiðslu til forseta Namibíu sem fjallað var um í Al Jazeera en með allt öðrum hætti í Kveik.

Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja.

Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja, segir enda í samtali við norska viðskiptablaðið DN um helgina, að hann hafi ekki trú á að fyrirtækið hafi tekið þátt í mútugreiðslum í Namibíu. 

Viljinn mun fjalla ítarlega um ný gögn sem komin eru fram í Samherjamálinu næstu daga.