Jóhannes Þór sagði við ráðherra að þolinmæði sín væri á þrotum

Á næstu dögum kemur út bók eftir Björn Inga Hrafnsson, ritstjóra Viljans, um Ísland og COVID-19, þar sem skyggnst er á bak við tjöldin í viðbrögðum hér á landi við heimsfaraldrinum sem kom upp í Kína fyrir áramótin síðustu og hefur sett allt á hliðina. Viljinn birtir hér stutt brot úr einum kafla bókarinnar og mun gera slíkt kl. 16 næstu daga:

Fundað var í stjórnkerfinu um þessa stöðu næsta dag, mánudaginn 13. júlí 2020, og þar kom fram mikill vilji til að mæta þörfum Icelandair í þessum efnum. Bæði var talið að félagið mætti ekki við efnahagslegum skakkaföllum á þessum tíma og síðan það að gjaldeyristekjur af þessum ferðamönnum væru eftirsóknarverðar og því brýnt að finna leið til að yfirstíga takmarkanir hvað snerti  skimunargetu.

Enn sem fyrr hafði Jóhannes Þór Skúlason sent Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ferðamálaráðherra harðort tölvuskeyti þar sem tekið var undir sjónarmið forstjóra Icelandair. Sagði Jóhannes Þór að þolinmæði sín „væri á þrotum“ og krafðist aðgerða strax:

„Það er afstaða SAF að slíkar takmarkanir séu algerlega óásættanlegar og samtökin krefjast þess að stjórnvöld finni aðra lausn sem kemur í veg fyrir að takmarka þurfi lendingar í KEF. 

Nú er mánuður síðan ég lýsti því á mjög skýran hátt á fundi með m.a. Víði Reynissyni, Páli og Skarphéðni, Elínu frá Isavia og Birnu Ósk frá Icelandair að þessi nálgun á verkefnið væri einfaldlega ekki í boði. Minni á að þar tóku Isavia og Icelandair fullkomlega undir með mér. 

Það er sem sagt rúmur mánuður frá því að við bentum fyrst á að þetta eru algerlega óboðleg vinnubrögð. Niðurstaða stjórnvalda er að hundsa þessar skýru ábendingar og valda tjóni á bæði orðspori og viðskiptahagsmunum.“

Allt var sett á fullt í stjórnkerfinu til að bregðast við gagnrýni forstjóra Icelandair og Samtaka ferðaþjónustunnar. Lausnin fannst og var kynnt formlega degi síðar, þriðjudaginn 14. júlí. Ákveðið var að ferðamönnum frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi yrði bætt  á lista ásamt Færeyjum og Grænlandi og að frá fimmtudegi 16. júlí yrðu þeir undanþegnir kröfum um skimun og sóttkví til varnar gegn COVID-19.