Jón Baldvin kveðst saklaus, en vera dæmdur án dóms og laga

„Mér líður eins og ég sé á sakamannabekk. Eins og ég hafi verið dæmdur og fordæmdur án dóms og laga,“ sagði Jón Baldvin Hannibalsson, fv. utanríkisráðherra og sendiherra í Silfrinu í morgun, þar sem hann svaraði þeim þungu ásökunum sem á hann hafa verið bornar að undanförnu.

Hann segir að tilgangi hóps kvenna í kringum Aldísi dóttur hans hafi verið náð með því að hætt hafi verið við útgáfu afmælisrits í tilefni áttatíu ára afmælis hans, heillaóskaskrá hent út um gluggan og málþing af sama tilefni blásið af.

Hyggst hann gefa út á næstunni bók þar sem hann svarar ásökununum lið fyrir lið, hún muni heita: Vörn fyrir æru, þar sé því lýst hvernig „fámennur öfgahópur“ hafi með skipulegum hætti náð að sverta mannorð hans og æru.

Jón Baldvin rakti í þættinum sjúkrasögu Aldísar dóttur sinnar, sagði fráleitt að hann einn hafi getað beitt áhrifum sínum til að fá fram nauðungarvistun og lagði fram skjöl frá lögreglu, þar sem segir að hvorki hann sé eiginkona hans, Bryndís Schram, hafi nokkru sinni beitt áhrifum sínum til að fá atbeina lögreglu gegn dóttur sinni.