Jörð skelfur á Reykjanesi og eldgos gæti verið framundan – almannavarnir á óvissustig

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýsir yfir óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga.  Jarðskjálftahrina hófst að kvöldi til 4. júlí og er enn í gangi.  

Íbúar eru hvattir til þess að huga að lausa- og innanstokksmunum sem geta fallið við jarðskjálfta og huga sérstaklega að því að ekki geti fallið lausamunir á fólk í svefni.  Veðurstofa Íslands hefur einnig vakið athygli á því að grjóthrun og skriður geti farið af stað í brattlendi og því er gott að sýna aðgát við brattar hlíðar.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi Almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila. Á óvissustigi fara viðbragðsaðilar og stofnanir yfir áætlanir sínar og viðbúnað.

Ef þú ert innandyra þegar jarðskjálfti byrjar– ekki hlaupa af stað.

• Haltu kyrru fyrir, mörg slys verða þegar hlaupið er af stað

• Farðu undir borð eða rúm, verðu höfuð og háls, haltu þér í sterkbyggð húsgögn

• Krjúptu niður í horni við burðarvegg eða í hurðaropi við burðarvegg. Gætið fyllstu varúðar og skoðið flóttaleið út eftir skjálftann.

• Verðu höfuð þitt og andlit með kodda- ef þú vaknar upp við jarðskjálfta

• Haltu þig frá gluggum – þeir geta brotnað

• Láttu þína nánustu vita af þér með SMS þegar jarðskjálftnn hættir

Ef þú er utandyra þegar þú finnur jarðskjálfta – ekki hlaupa inn

• Vertu áfram úti – reyndu að finna skjól til að krjúpa, skýla, halda

• Reyndu að koma þér frá byggingum sem geta hrunið

• Grjóthrun, skriður og snjóflóð geta fallið úr hlíðum og fjalllendi

• Raflínur eru hættulegar ef þær slitna – varist að snerta þær

• Reyndu að komast á opið svæði þar sem byggingar þrengja ekki að

  • Farðu frá ströndinni ef þú ert á svæði þar sem hætta er á flóðbylgju

Ef þú ert að keyra þegar þú finnur jarðskjálfta:

• Leggðu ökutæki og stoppaðu. Vegir og brýr geta skemmst í jarðskjálfta

• Hafðu sætisbeltin spennt

• Haltu kyrru fyrir ef þú ert í bíl þar sem hann getur varið þig gegn brotum og braki sem hægt er að verða fyrir í jarðskjálfta – hlustaðu á útvarpið, þar koma jafnan fyrstu upplýsingarnar um jarðskjálftann.