Julian Assange fær langstærstan hluta skaðabótanna

Julian Assange, forsprakki Wikileaks og aðaleigandi Sunshine Press, fyrir nokkrum árum ásamt lögmanni sínum, Sveini Andra Sveinssyni.

Einn umtalaðasti — og umdeildasti — maður heims, Ástralinn Julian Assange, forsprakki Wikileaks, á tilkall til langstærsta hluta skaðabóta upp á 1,1 milljarð sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær kortafyrirtækið Valitor til að greiða Sunshine Press Productions.

Samkvæmt dóminum fær Sunshine Press langstærstan hluta skaðabótanna, eða 1,1 milljarð króna, og félagið Datacell um 60 milljónir. Þá er Valitor einnig gert að greiða allan málskostnað, tæpar tuttugu milljónir króna.

Sveinn Andri Sveinsson, hrl., er lögmaður Sunshine Press og hefur rekið mál þeirra gagnvart kortafyrirtækinu undanfarin ár fyrir öll dómsstigum eftir að Visa greiðslukortafyrirtækið lokaði á greiðslugátt WikiLeaks árið 2010 þannig að framlög til samtakanna bárust ekki með þeirri leið og Valitor fyrirtæki Visa á Íslandi gerði slíkt hið sama árið 2011.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið óheimilt og hefur undanfarin ár verið tekist á um umfang þess tjóns sem félögin urðu fyrir.

Dómkvaddir matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að tjón fyrirtækjanna tveggja væri 3,2 milljarðar. Var það byggt á upphæð þeirra styrkja sem félögin höfðu fengið dag hvern gegnum greiðslugáttirnar þar til þeim var skyndilega lokað.

Samkvæmt stofnsamþykktum Sunshine Press Productions er Julian Assange, sem nú situr í fangelsi í Lundúnum og bíður þess hvort hann verði framseldur til Bandaríkjanna að kröfu þarlendra yfirvalda, eigandi 96% hlutafjár í félaginu. Aðrir eigendur, hver með 2% eignarhlut, eru þeir Kristinn Hrafnsson fréttamaður og ritstjóri Wikileaks, Ingi R. Ingason kvikmyndatökumaður og Gavin MacFadden.

Arion-banki sendi frá sér afkomuviðvörun í gær eftir dóm Héraðsdóms, þar sem hann er með bakábyrgð fyrir mögulegu tjóni Valitor í þessu máli ásamt Landsbankanum.