Kaffi eða kók? Því ekki bæði

Kaffikók er nýr drykkur frá Coca-Cola fyrirtækinu, eða Coke Coffee á frummálinu. Drykkurinn er skilgetið afkvæmi hinna geysivinsælu drykkja kaffi og kók, en sala á honum er þegar hafin í Víetnam, Brasilíu og Kólumbíu, skv. CBS News. 

Drykkurinn mun innihalda minni sykur en kók og minna koffein en kaffi.

Fyrirtækið hyggst sækja fram á kaffidrykkjamarkaðnum, en sala þess á kaffi í dós í Japan hefur gengið vel í áratugi.

Einnig hafa kaldir kaffi- og koffíndrykkir notið vaxandi vinsælda í Bandaríkjunum, en fyrirtækið hyggst sækja fram þar og í Evrópu með kalda kaffidrykki.

Skemmst er að minnast þess að kaldir koffíndrykkir á borð við Nocco hafa slegið eftirminnilega í gegn hér á landi og tekið til sín stóra markaðshlutdeild á drykkjarmarkaði á kostnað hefðbundinna gosdrykkja.