Sóley Tómasdóttir, fv. forseti borgarstjórnar Reykjavíkur og ritari VG, gagnrýnir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, harðlega í færslu á samskiptamiðlum í dag.
Segist hún hvorki hafa samúð né húmor fyrir körlum með ofvaxin egó og ótakmarkaða möguleika á að ógna stöðugleika og „velferð okkar hinna“.
Sóley hefur verið áberandi í hreyfingu femínista hér á landi á undanförnum árum og miðað við færslu hennar, telur hún að karlmennskan hafi ráðið miklu um örlög WOW air, sem var formlega tekið til gjaldþrotaskipta í dag.
Í því ljósi er athyglisvert að horfa til þess að flugfélagið hefur um árabil verið einn fjölmennasti vinnustaður kvenna hér á landi.
Ekki aðeins voru mörg hundruð konur að störfum í flugvélum fyrirtækisins, heldur voru þær áberandi í yfirstjórn fyrirtækisins, t.d. stjórnarformaðurinn Liv Bergþórsdóttir, stjórnarmaðurinn Helga Hlín Hákonarsdóttir og upplýsingafulltrúinn Svanhvít Friðriksdóttir. Þá er nýhætt sem aðstoðarforstjóri, Ragnhildur Geirsdóttir.