Kannski er eina mótefnið að finna í kjarna kristindómsins

Að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni flutti biskup erindi á upplýsingafundi Almannavarna. / Lögreglan.

„Í dag er ekki til mótefni við þessum vágesti sem veldur áður óþekktu manntjóni og fjártjóni. Kannski er eina þekkta mótefnið við sjúkdómnum að finna í kjarna kristindómsins, það er samstaða, kærleikur, ábyrgð og samkennd. Kirkjan hefur ríkt hlutverk í samfélagi sem reiðir sig á slík gildi sem aldrei fyrr. Kirkjan á að vera aflvaki og varðmaður slíkra gilda – í samfélagsbaráttu við illvígan sjúkdóm eða sem leiðandi afl framtíðarinnar.“

Þetta var meðal þess sem kom fram í páskaprédikun frú Agnesar Sigurðardóttur, biskups Íslands, sem flutt var í Dómkirkjunni í dag kl. 11. Einkunnarorð prédikunarinnar voru: Upprisan er ný sköpun – nýtt lífsviðhorf.

Fer páskaprédikun biskups hér á eftir:

——————————————

Prédikun flutt í Dómkirkjunni páskadag 12. apríl 2020. Ps 118:14-24; 1. Kor. 5:7-8; Mk. 16:1-7.

Við skulum biðja:
Kærleikans Guð. Við lofum þig og þökkum þér fyrir upprisu sonar þíns og sigur lífsins yfir dauðanum. Sendu styrk og kraft trúarinnar og sigra efann. Leyf okkur finna í lífi okkar gleði upprisunnar og hjálpræðið í Jesú Kristi. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega hátíð kæru landsmenn.

Það er undarlegir tímar sem við lifum á. Hverjum hefði dottið það í hug þegar við komum saman hér í Dómkirkjunni í Reykjavík á hátíð ljóss og friðar, jólunum, að hér yrði nánast tóm kirkja á næstu hátíð, páskahátíðinni, upprisuhátíðinni. Þá var kirkjan þéttsetin en nú er öldin önnur. Samkomubann hefur verið í gildi um hríð og við virðum það ásamt öðrum þeim tilmælum sem almannavarnir hafa beðið okkur um að virða. Kristin trú er samfélagstrú og kristin kirkja er samfélag þeirra sem trúa á Jesú Krist. En þökk sé tækninni og þeim úrræðum sem við búum við í dag, þá hefur kirkjan getað sinnt hlutverki sínu þrátt fyrir þær takmarkanir sem kórónaveiran veldur. Hlutverk kirkjunnar er að boða trú á Jesú Krist, krossfestan og upprisinn og það er gert bæði í orði og í verki. Ég þakka prestum, djáknum, tónlistarfólki og starfsfólki sóknanna fyrir framúrskarandi hugmyndaauðgi, staðfestu og áræðni við boðun orðsins á þessum erfiðu tímum. Mannauður kirkjunnar er mikill og hefur aldrei komið betur í ljós en nú á síðustu vikum þegar samkomubann hefur verið í gildi.

Kristin trú byggist á kærleika Guðs til okkar mannanna sem við miðlum svo til samferðamanna okkar. Kærleikurinn er gjöf sem við þiggjum og síðan gefum. Ein af þeim leiðum sem Hjálparstarf kirkjunnar býður upp á sem leið fyrir almenning til að hjálpa öðrum er gjöf sem gefur. Það eru gjafabréf sem nýtast börnum, ungmennum og fullorðnum til að menntast og koma undir sig fótunum.
Hjálparstarf kirkjunnar aflar tekna til að geta hjálpað fólki í neyð bæði hér heima og erlendis. Nú stendur yfir páskasöfnun Hjálparstarfsins og er sérstaklega safnað fyrir neyðaraðstoð við fólk á Íslandi sem býr við fátækt og einnig hugsað til þeirra sem þurfandi eru í fátækrahverfum Kampala í Úganda. Faraldurinn á eftir að hafa áhrif á alla og ekki síst fólkið sem býr í fátækustu samfélögum heims. Með starfsfólki Hjáparstarfs kirkjunnar vinna sjálfboðaliðar sem hafa boðist til að versla inn fyrir fólk sem ekki hefur treyst sér til að fara út. Þannig hefur kærleikurinn og fegurðin streymt inn í samfélög heimsins á þessum erfiðu tímum.

Gleðiboðskapur páskahátíðarinnar birtist í þremur orðum. Hann er upprisinn. Jesús er upprisinn. Þessi boðskapur hefur hljómað í kristnum löndum heims í tvö þúsund ár. Hann hefur talað inn í erfiðar aðstæður fólks og haft áhrif á einstaklinga og samfélög. Á þessum boðskap hvílir kristin kirkja um allan heim, því án upprisunnar væri um ekkert að tala og frásögurnar um mann og heim sem ritaðar eru í Biblíunni hefðu ekki sama gildi.

Hvað gefur lífinu gildi? Þessarar spurningar spyrjum við gjarnan á lífsins leið og ekki bara spyrjum heldur sækjumst við eftir að vera þar og reyna það sem okkur finnst gefa lífinu gildi. Þessir páskar eru öðruvísi en flestir aðrir. Fólk hópast ekki saman til að renna sér á skíðum eða hitta ættingja og vini. Nú hefur það tekist sem kannski engum hefði dottið í hug, að fyrirmælum er hlýtt. Við stöndum frammi fyrir ógn sem hefur tekið líf fjölda fólks, veikt aðra og lagt efnahagskerfi heimsins á hliðina. Þegar lífinu og lífsgrundvellinum er ógnað þá gildir samstaðan. Við erum öll almannavarnir hljómar á öldum ljósvakans sem og manna í millum. Þekking og reynsla í baráttunni gegn hinni skæðu kórónaveiru berst frá einu landi til annars og vísindamenn heimsins á sviði heilbrigðismála veita hver öðrum upplýsingar sem nýtast til að skilja sjúkdóminn og hvernig hann fer með fólk. Unnið er hörðum höndum við að þróa bóluefni og tæki og búnaður eru fundin, flutt og gefin. Þannig birtist kærleikurinn og umhyggjan. Baráttuandinn horfir í eina átt, hvar á jörðu sem menn búa, í þá átt að sigra stríðið við veiruna. Allt gerist hratt og það sem var ákveðið í gær getur verið breytt í dag.

Í dag er ekki til mótefni við þessum vágesti sem veldur áður óþekktu manntjóni og fjártjóni. Kannski er eina þekkta mótefnið við sjúkdómnum að finna í kjarna kristindómsins, það er samstaða, kærleikur, ábyrgð og samkennd. Kirkjan hefur ríkt hlutverk í samfélagi sem reiðir sig á slík gildi sem aldrei fyrr. Kirkjan á að vera aflvaki og varðmaður slíkra gilda – í samfélagsbaráttu við illvígan sjúkdóm eða sem leiðandi afl framtíðarinnar.
Það gerðust miklir atburðir í landinu helga fyrir tvö þúsund árum. Við minnumst þeirra þessa dagana. Við lesum um þá sögu í Nýjatestamentinu í Biblíunni, frá pálmasunnudegi til páskadags þar sem atburðir skírdags og föstudagsins langa eru nauðsynlegar vörður til páskadags. Við göngum frá krossinum hans döpur í bragði og sláumst í för með þeim Maríu Magdalenu, Maríu móður Jakobs og Salóme á leið þeirra að gröfinni til að smyrja lík vinar síns. En eins og guðspjöllin greina frá breyttist hryggð þeirra í fögnuð. Lífið og ljósið mættu þeim en ekki dauðinn og myrkrið.
Já, það voru konur sem fyrstar komu til grafarinnar og það var kona sem fyrst sagði frá upprisunni. María frá Magdölum var fyrst allra manna til að segja frá þessu undri sem upprisan er og reyndar var það líka kona, Lydia að nafni, sem fyrst tók kristna trú í Evrópu. Hún var skírð og heimili hennar, eins og segir í Postulasögunni. Hin sænska Margareta Melin orti sálm um upprisuna. Kristján Valur Ingólfsson biskup þýddi hann. Þriðja og síðasta versið er svona:

Nýja menn vill Guð gera
og gleðin mun ríkja, því
breytast mun geimur í geislaflóð
er Guð skapar allt á ný.

Já, upprisan er ný sköpun, nýtt lífsviðhorf. Hún er ekki bara til að trúa á heldur ekki síður til að lifa eftir. Líf í trú felur í sér lífsviðhorf þar sem Guð er jafn nálægur í dagsins önn og samferðafólkið. Sá Guð birtist okkur í hinum upprisna Jesú. Sá Guð hefur falið manninum hlutverk í sístæðri sköpun sinni, gagnvart náttúrunni, umhverfinu og samferðafólkinu.

Það er tími alþjóðlegrar samstöðu sagði Iyad Abumoghli fulltrúi frá umhverfisáætlun sameinuðu þjóðanna í bréfi sem hann sendi nýlega. Í bréfi sínu brýnir hann lesendur sína til að taka mark á því sem læknar segja um COVID 19 og hvernig eigi að forðast sjúkdóminn. Væri hann á Íslandi myndi hann segja að við ættum að hlýða Víði en þar sem hann býr í Nairobi í Kenýa segir hann að við eigum að halda fjarlægð okkar á milli. Við treystum læknunum þegar við leitum til þeirra og nú skulum við einnig gera það þar sem þeim er annt um alla, hvar sem þeir búa, segir hann í bréfinu. Og svo hvetur hann til að lesa og hlusta á ákall framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlega samstöðu og taka upp óvenjulegar og áður óþekktar leiðir til að takast á við þennan heimsfaraldur.
Þessi maður tók þátt í ráðstefnu síðastliðið haust um markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldin var í Skálholti og er aðalráðgjafi umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna. Í áraraðir hafa kirknasamtök heimsins barist fyrir upprisu náttúrunnar og umhverfisins og hvatt jarðarbúa til sjálfbærni í lífsháttum. Vísindamenn hafa leitt okkur í sanninn um að losun gróðurhúsalofttegunda vegna lífshátta margra jarðarbúa hafa valdið ofhlýnun jarðar og stefnir í að hlutar heimsins verði óbyggilegir. En svo hryggilegt sem það er þá hefur veiran skæða orðið til þess að stopp hefur verið sett á daglegt líf jarðarbúa og á sama tíma berast þær gleðilegu fréttir að íbúar í Punjab héraði, nyrst á Indlandi, sjái nú loks aftur til Himalafjalla sem þeir hafa ekki séð síðustu þrjátíu árin vegna mengunar. Að gervihnattamyndir sýni að mikið hafi dregið úr loftmengun í Kína og að síkin í Feneyjum séu aftur orðin tær. Við höfum verið að stefna í þessa áttina, að minnka mengun og auka loftgæði en það hefur gengið allt of hægt. En þessar fréttir sýna, svo ekki verður um villst að með samtakamætti og einbeittum vilja er hægt að ná því markmiði sem samþykkt var á loftslagsráðstefnunni í París árið 2015 að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hnattræn hlýnun verði ekki meiri en 2°. Nú hlýða menn Víði hér á landi og einhverjum í öðrum ríkjum. Það þarf einhvern til að jarðarbúar hlýði kalli umhverfis síns sem hrópar á hjálp til að geta haldið áfram að lifa. Jarðarbúar eru að krossfesta heimili sitt jörðina. Breytt lífsviðhorf og breyttir lífshættir eru það sem til þarf svo hún rísi upp og lifni á ný.

Jesús sagði við lærisveina sína: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu“ þegar hann sendi þá til að skíra og kenna. Þetta vald hefur verið nefnt vald kærleikans. Páll postuli lýsir kærleikanum í fyrra Korintubréfinu:

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok,
og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.
Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

Viðbrögð mannkyns og heimsins alls vegna Covid 19 hafa laðað fram þennan kærleikstón sem ómar í hjarta hvers manns. Getur verið að við séum að lifa kærleiksóðinn í viðbrögðum heimsins vegna Covid19? Við viljum hjálpast að, við viljum passa upp á aðra, við gerum okkar besta svo öðrum líði vel, svo aðrir smitist ekki. Hugur okkar er hjá öðrum og verkin okkar og framganga miða að því að við öll komumst í gegnum þennan tíma, hraust og án stóráfalla. Þegar skóinn kreppir þá birtist oft hið sanna eðli mannsins og úr hverju fólk er gert.

Atburðir dymbilviku og páska fjalla um dauða og líf eins og guðspjöllin greina frá, fjalla um grimmd og kærleika. Undanfarið höfum við heyrt sögur af fólki sem veikst hefur af COVID 19 og öðrum sjúkdómum. Því miður hafa ekki allir lifað af. Það er sárt og erfitt og votta ég ykkur sem misst hafið samúð og bið hinn upprisna frelsara að styrkja ykkur og hugga. Sem betur fer hafa margir komist aftur til heilsu. Við fáum fréttir daglega og nýjar tölur eru birtar um ástandið. „Í dag er ég orðin tala á blaði á Covid.is“ sagði ung kona á facebook fyrir stuttu. Já, á bak við tölurnar er fólk með sína sögu og sitt líf. Og svo eru það þau sem hjúkra, líkna og lækna. Undanfarna daga hefur hugur minn verið hjá fólkinu mínu fyrir vestan. Ég sendi ykkur og öllum sem eruð veik og þeim sem sinna veikum kærleikskveðjur með bæn um betri tíð bæði heilsufarslega og veðurfarslega.

Eins er hugur minn hjá þeim sem misst hafa vinnuna, eða þurfa að þola skert starfshlutfall og búa nú um stundir við óvissu um sína framfærslu og framtíð, að því leiti. Ég bið að upprisusólin megi einnig skína skjótt til ykkar.

Í guðspjöllunum er greint frá því að hinn upprisni Kristur birtist fylgjendum sínum og í Postulasögunni er sagt frá því þegar hann birtist Sál frá Tarsus sem síðar var nefndur Páll postuli. Honum birtist hann jafnvel þó Sál hafi barist gegn því að boðskapur Jesú næði fótfestu meðal manna. Æ síðan hafa menn lifað boðskapinn og starfað í birtu upprisunnar sjálfum sér til gleði og samferðafólki sínu til blessunar. Konurnar við gröfina heyrðu fyrstar manna tíðindin við tóma gröfina, hann er upprisinn. Fyrir trú játum við að Kristur er sannarlega upprisinn. Gleðilega hátíð í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.