Kapphlaup og valdabrölt á Norðurpólnum

Sviptingar eru framundan í heimsmálunum með hlýnandi loftslagi.

Aðeins fáeinum dögum áður en norðurslóðaráðstefnan: Norðurheimskautið: Vettvangur samræðna (e. Arctic: Territory of Dialouge), var haldin í St. Pétursborg í Rússlandi, héldu Rússar heræfingar í Barentshafi. M.a. skaut freigáta úr norðurflota Rússa niður kafbátatundurskeyti þeirra sjálfra. 

Þetta var hin sama norðurslóðaráðstefna og forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson, sótti fyrir Íslands hönd, og vakti athygli fyrir að tala rússnesku. Einnig var þar mætt Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.

Heræfingin er í grein Financial Times hafa verið sýndarmennska Rússlands gagnvart ráðstefnugestum, en strandlína Noregs nær inn á Barentshaf.

Íshella Norðurpólsins hefur skroppið saman um 42% síðan árið 1980.

Svokölluð „Norðurleið“ til og frá Asíu er orðin keppikefli margra ríkja. Talið er að siglingar milli Evrópu og Kína um Norðurleið séu um 40% hraðari en sigling um Súez-skurðinn. Það gæti sparað gríðarlegar fjárhæðir í eldsneytiskostnaði og lækkað kolefnislosun um allt að 52%. Jafnframt er talið að miklar auðlindir sé að finna undir íshellunni.

Margir hafa fengið glýju í augun yfir þeim möguleikum sem líta nú dagsins ljós undan bráðnandi ísnum. Enginn hefur þó lagt sig jafn einarðlega eftir þeim og Rússland, sem hefur eytt gríðarlegum fjárhæðum í hernaðaruppbyggingu á strandlínunni meðfram Norðurpólnum.

Skýr skilaboð frá Rússum

Skilaboðin þykja skýr, enginn fær að sigla Norðurleið nema undir leiðsögn og eftirliti Rússlands. Rússland hefur m.a. veitt ríkisfyrirtækinu Rosatom einokun á siglingum í fylgd ísbrjóta. Leiðin er ísilögð níu mánuði ársins, en talið er að þeim mánuðum gæti fækkað enn frekar, haldi íshellan áfram að bráðna. 

Samkeppnisaðilar á borð við Bandaríkin virðast nú fyrst vera að kveikja á perunni, en í vikunni pantaði Bandaríkjastjórn sinn fyrsta ísbrjót í yfir tuttugu ár. Rússland á fjóra, þar af þrjá kjarnorkuknúna, og hyggjast smíða fleiri. Rússar smíðuðu fyrsta ísbrjót heims fyrir 120 árum, Yermak, og árið 1957 smíðuðu þeir fyrsta kjarnorkuknúna ísbrjótinn, Lenín.

Rússar hafa þegar krafist stærri landhelgi vegna fjalllendis á sjávarbotninum og talið er að þeir muni fá sínu framgengt á á næsta ári. Árið 2007 gerðust þeir svo kræfir að stinga niður rússnesku flaggi úr títaníum á sjávarbotn Norðurpólsins, í leikrænum og táknrænum tilþrifum við að eigna sér svæðið. Sovétríkin lögðu gríðarmikla áherslu á viðveru og sýnileika á norðurslóðum, sem varð til þess að NATO fylgdist vel með svæðinu fyrir norðan Ísland. En Sovétríkin liðu undir lok, og mikilvægi þess minnkaði, eins og Íslendingar þekkja vel, bandaríski herinn hafði sig á brott úr Keflavík í framhaldinu.

En nú er öldin önnur, bráðnandi íshellan og hratt vaxandi velmegun í Asíu hafa breytt áherslunum aftur og í fyrra hélt rússneski herinn stærstu heræfingu sína í áratug á svæðinu. Áhugi Kína á norðurskautinu hefur aukist jafnt og þétt, Kína á áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu og hafa gefið út stefnuskjal þar sem orðið „Pól-silkivegurinn“ (e. Polar Silk Road) kemur fyrir. Fleiri Asíuríki, eins og t.d. S-Kórea, sjá einnig mikla möguleika í hinni nýju verslunarleið.

Framsýnn maður Nubo

Ýmsir muna eflaust eftir kínverska fjárfestinum Huang Nubo, sem vildi kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum, en fékk ekki.

Hægt væri að geta sér til um að þar hafi verið framsýnn maður á ferð, en nú eru uppi fyrirætlanir um byggingu stórskipahafnar í Finnafirði. Verði hún viðkomustaður skipa á Norðurleið, er talsverðrar uppbyggingar að vænta á eyðilegum hrjóstrum þessa svæðis. 

Margir hafa ónotatilfinningu yfir ásækni Rússlands í Norðurskautið. Fjarvera Bandaríkjanna og Kanada var áberandi á ráðstefnunni, en fulltrúar Evrópuríkja létu sig ekki vanta. Mest notaða orðið á ráðstefnunni var „samvinna“. Málið hefur nefnilega vandast eftir kólnandi samskipti Rússlands við Vesturlönd. Viðskiptaþvinganir hafa verið settar á Rússland eftir innlimun Krímskaga, banatilræðið við Skripal-feðginin í Bretlandi og afskipti Rússa af kosningum erlendis.

Ljóst er að nauðsynlegt verður fyrir Vesturlönd, sem hyggjast njóta góðs af þeim tækifærum sem opnast með Norðurleið og bráðnun íshellunnar, gætu þurft að dansa á línunni í samskiptum sínum við Rússland.