„[Kári Stefánsson] hrasar um niðurstöðu án nokkurrar rannsóknar og brigslar heilli atvinnugrein um lögbrot ýmiss konar. Það mátti búast við öðru,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í greininni „Virðum staðreyndir“, í Fréttablaðinu í dag, sem segir honum illa hafa brugðist bogalistin í umræðum um makrílverð og -veiðar.
„Eins og Kári þekkir verður kenning í læknavísindum að byggja á rannsóknum, tilraunum eða kerfisbundnum athugunum. Það hlýtur að mega gera þá kröfu til Kára að hann viðhafi sömu aðferðafræði í orðræðunni um samfélagsmál.“
Tilefnið er að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fór mikinn í grein í Vísi um daginn undir yfirskriftinni „Landráð?“ og í ýmsum fréttaþáttum, þar sem hann sakaði útgerðina um margskonar óknytti, þar á meðal þjófnað, í sambandi við veiðar og löndun á makríl. Til samanburðar tók hann Noreg, sem virðist í heildina fá hærra verð fyrir makríl á mörkuðum en Ísland.
Makrílafurðir ekki stöðluð vara með eitt heimsmarkaðsverð
Heiðrún Lind bendir á að makríll sé ekki stöðluð vara með heimsmarkaðsverð á borð við olíutunnur, heldur sé það vinnsla, gæði og markaðir sem hafi mikil áhrif á verð afurðanna. Í því samhengi segir hún:
„Fjöldi mismunandi afurða makríls er seldur til manneldis og verð þeirra er misjafnt. Makríll kann til dæmis að vera heilfrystur, hausskorinn eða flakaður. Þá er hann mismunandi að gæðum og stærð eftir til dæmis árstíma og veiðisvæðum. Þá fer eitthvað af makríl til bræðslu. Verð tekur mið af öllum þessum þáttum og kann því að vera mjög misjafnt eftir afurð og gæðum.“
„Sá makríll sem er bestur að gæðum er jafnan heilfrystur. Því sem næst allur makríll Norðmanna er heilfrystur, en sú afurð gefur hæst verð. Þegar makríll gengur í íslenska lögsögu hentar hann oft illa til heilfrystingar. Sem dæmi má nefna, að þegar makríll gengur hingað í veiðanlegu magni yfir sumarmánuðina er vöxtur hans hraður og mikil laus fita er í holdinu. Það gerir hann því sem næst ótækan til manneldis. Aflameðhöndlun, veiðarfæri og sjólag hafa einnig áhrif á gæði.“
Norðmenn búa við meiri gæði, reynslu og hærra söluverð
Hún segir Norðmenn búa því við þann munað að hafa aðgang að makríl af meiri gæðum en Íslendingar, auk þess sem þeir hafa verulegt forskot í veiðireynslu og markaðssetningu á honum, en Japanir, sem borga hæsta verð fyrir afurðina, kaupi makríl af Norðmönnum að 85%, en aðeins 2% af Íslendingum. Þeir borgi 25-35% hærra verð fyrir þann norska en þann íslenska.
„Þetta hefur eðli máls samkvæmt áhrif á verð makrílafurða.“