Karl Bretaprins greinist með Kórónaveiruna

Karl Bretaprins og ríkisarfi hefur greinst með Kórónaveiruna, að því er talsmaður bresku krúnunnar staðfesti í dag. Hann mun vera með væg einkenni, að svo komnu máli.

Karl hefur dvalið á sveitasetri sínu í Skotlandi undanfarna daga og unnið þaðan og er við ágæta heilsu, að sögn talsmannsins.

Karl er 71 árs og fer nú í einangrun ásamt eiginkonu sinni Camillu Parker Bowles, hertogaynju af Cornwall. Hún greindist þó ekki með veiruna við sýnatöku í gær.

Ekki liggur fyrir hvernig Karl smitaðist, en hann hefur sinnt ótal opinberum viðburðum upp á síðkastið. Meðal annars er ekki langt síðan hann hitti Albert fursta í Mónakó, en hann hefur líka greinst með veiruna og er í einangrun í heimalandi sínu.