Karl Gauti og Ólafur íhuga að ganga í Miðflokkinn: Yrði stærstur í stjórnarandstöðu

Miðflokkurinn yrði stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn með liðsstyrk Ólafs og Karls Gauta. / Skjáskot úr Fréttum Stöðvar 2.

Allar líkur eru nú á að tveir þingmenn sem teljast nú utan flokka, þeir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, sem reknir voru fyrir jól úr Flokki fólksins, gangi yfir í Miðflokkinn sem yrði þá stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu og þriðji stærsti þingflokkurinn. Þingmennirnir telja, samkvæmt heimildum Viljans, að þessi ákvörðun hafi eiginlega verið tekin fyrir þá af forystu Flokks fólksins með hinum fordæmalausa brottrekstri.

Ólafur Ísleifsson sagðist ekki útiloka neitt í þessu sambandi, í samtali við Heimi Má Pétursson í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Komin væri upp ný staða, þeir tveir gætu ekki myndað sjálfstæðan þingflokk í samræmi við þingsköp Alþingis, þeir hafi átt í erfiðleikum með að fá úthlutuðum ræðutíma í almennum stjórnmálaumræðum og nefndaskipan tæki ekki mið af stöðu þeirra.

Dr. Ólafur Ísleifsson alþingismaður utan flokka. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Allt þetta myndi breytast með inngöngu tvímenninganna í Miðflokkinn. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, gæti þá farið fram á að endurskipað yrði í nefndir þingsins í samræmi við þingstyrk Miðflokksins og það myndi þýða fjölgun nefndasæta á vegum flokksins í þinginu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Í sögulegu samhengi er rétt að rifja upp, að meðal þess sem rætt var á margfrægum spjallfundi þingmanna á Klausturbar í nóvember, var einmitt sá möguleiki að þeir Ólafur og Karl Gauti gengju yfir í Miðflokkinn.

Frá þeim samræðum hefur mikið vatn runnið til sjávar og íslensk stjórnmál leikið á reiðiskjálfi, en niðurstaðan gæti engu að síður orðið sú að formaður Miðflokksins fengi ósk sína uppfyllta að lokum.

Þess má svo að lokum geta, að hávær orðrómur hefur verið um það í þinginu að Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmenn Flokks fólksins, hyggi á sameiningu við Samfylkinguna, eða aukið samstarf hið minnsta. Viljinn hefur sent fyrirspurnir um málið á Ingu, sem er formaður Flokks fólksins, en hún hefur ekki brugðist við þeim.