Katrín boðar frekari björgunaraðgerðir: Erum stödd í miðjum storminum

„Við erum stödd í kreppu sem mun væntanlega rata í sögubækurnar sem ein sú óvæntasta en líka dýpsta kreppa sem við höfum staðið frammi fyrir á lýðveldistímanum og þótt lengur væri leitað,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á þingi í dag þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði hana út í björgunarpakka stjórnvalda og bað um skýringar á því að margboðuð brúarlán væru ekki enn komin til framkvæmda.

Sigmundur Davíð spurði forsætisráðherra m.a. hvort frekari aðgerða væri að vænta, en þegar hafa þrír svonefndir björgunarpakkar litið dagsins ljós vegna veirufaraldursins.

„Munu verða frekari aðgerðir? Að sjálfsögðu. Við erum stödd í miðjum storminum. Við sjáum meira að segja fjölgun smita vegna faraldursins í ríkjum þar sem er verið að aflétta takmörkunum. Við munum þurfa að vera mjög sveigjanleg og hreyfanleg til að bregðast við,“ svaraði Katrín.

Hún bætti því við að Fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn hafi lokið sinni samningsgerð um brúarlán. Það sé mjög mikilvægt að þau komist í gagnið strax því að þetta sé stór aðgerð og bankarnir hafi fengið töluverðan hvata til þess að geta nýtt sér þessi brúarlán sem snúast ekki bara um 70% ríkisábyrgð. Þau snúist líka um lækkun sveiflujöfnunarauka, flýtingu á lækkun bankaskatts o.s.frv. Það sé mjög mikilvægt að þetta úrræði nýtist sem skyldi.