Katrín Jakobsdóttir, fv. forsætisráðherra, hefur náð forystu í nýjustu könnun Prósents fyrir Morgunblaðið sem birt var í kvöld, og mælist nú með 22,1% fylgi. Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri tapar enn fylgi frá því hún fór hæst í könnunum, en Halla Tómasdóttir heldur sókn sinni áfram. Í reynd munar mjög litlu fylgi á fjórum efstu frambjóðendunum.
Þetta er þriðja könnunin á fáeinum dögum sem sýnir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Sama gerðist hjá Maskínu sl. fimmtudag fyrir Stöð 2 og Þjóðarpúls Gallup fyrir RÚV á föstudag. Katrín hefur aukinheldur aldrei áður haft forystu í skoðanakönnunum Prósents fyrir þessar forsetakosningar.
Halla Hrund virðist hafa toppað of snemma og mælist nú með tæplega 20%, en fór hæst í 36% hjá Gallup fyrir þremur vikum. Í þriðja sæti hjá Prósent kemur Baldur stjórnmálafræðiprófessor með 18,2%, fjórða er Halla Tómasdóttir með 16,2% og Jón Gnarr fv. borgarstjóri fengi 13,4%. Arnar Þór Jónsson fengi 6% skv. könnuninni og aðrir minna.
Athygli vekur, að í könnun Prósents er bilið milli efstu fjögurra frambjóðenda aðeins um 6%. Það er því útlit fyrir afar spennandi kosningabaráttu næstu tvær tæpar vikur.