Línur skýrast nokkuð í kapphlaupinu um Bessastaði, með nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sem RÚV greinir frá nú í eftirmiðdaginn. Afgerandi efst eru þau Katrín Jakobsdóttir og Baldur Þórhallsson, sem bæði bæta við sig fylgi frá fyrri könnun, en Halla Hrund Logadóttir tekur stórt stökk milli kannana og er nú þriðja efst. Jón Gnarr og Halla Tómasdóttir missa bæði töluvert fylgi milli kannana.
„Munurinn á fylgi Katrínar Jakobsdóttur og Baldurs Þórhallssonar mælist ekki tölfræðilega marktækur. Tæplega þriðjungur segist ætla að kjósa Katrínu og 28% segjast ætla að kjósa Baldur.
Þar á eftir koma þau Halla Hrund Logadóttir og Jón Gnarr og eru þau nokkuð samstíga. Halla Hrund var með fjögurra prósenta fylgi í síðasta Þjóðarpúls en mælist nú með 16%. Jón fer úr 18% fylgi í 15% í nýjasta púlsinum.
Næst á eftir þeim koma þau Halla Tómasdóttir með 4% fylgi, Arnar Þór Jónsson með 3%, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir með 1% og aðrir frambjóðendur mælast samanlagt með 1% fylgi,“ segir í frétt RÚV.