Katrín er sameiginlegt skotmark: Hvernig nýtir hún sér það?

Það er óvenju mikið fjör í baráttunni fyrir forsetakosningarnar miðað við að enn sé rúmur mánuður til kjördags. Svo virðist sem þrír til fjórir frambjóðendur skeri sig úr þeim fjölda sem býður sig fram og merkilegt að kannanir sýna ekki marktækan mun milli efstu þriggja.

Greinilegt er að Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra er sameiginlegt skotmark nær allra annarra framboða. Margir láta ekki duga að mæla með þeim frambjóðanda sem þeim líst best á, eins og eðlilegt er og viðeigandi, heldur virðist aðalorkan fara í að skammast út í þá sem telja hana besta kostinn á Bessastaði að þessu sinni. Sumt í þeim árásum að undanförnu ber ekki vott um mikið jafnvægi, verður að segjast.

Þetta er áhugavert og mjög í takt við þróun erlendis í kosningum, þar sem fólk virðist eyða meira púðri í að vera á móti tilteknum frambjóðendum en styðja sinn mann eða konu.

Þetta er augljóslega veiki bletturinn á forsetaframboði Katrínar, að hún kemur beint úr stjórnmálunum og er umdeild sem slík. En það eru engin tíðindi, enda er sú staða einmitt líka hennar mesti styrkleiki; hún er einhver farsælasti stjórnmálaleiðtogi þjóðarinnar um langt árabil, annálaður mannasættir og vel þokkuð af samstarfsfólki úr öllum flokkum, hvort sem er úr stjórnarsamstarfi eða stjórnarandstöðu. Það ætti að segja ansi mikið.

Katrín þarf á næstu vikum að útskýra fyrir þjóðinni hvert erindi hennar er með forsetaframboði sínu. Hvers vegna hún er rétta manneskjan til að gerast sameiningartákn ákaflega sundurlausrar þjóðar sem virðist geta rifist um nánast hvað sem er. Hún þarf að sýna hvers vegna hún hefur um árabil haft persónufylgi langt umfram flokkinn sem hún veitti forystu og hvers vegna reynsla hennar úr því embætti og af alþjóðavettvangi getur nýst í nýju hlutverki á Bessastöðum, verði hún kosin.

Óvenju hátt hlutfall fólks ákveður forsetaefnið sitt á lokadögum kosningabaráttunnar hér á landi. En líklegt er að þeir sem gefa sig upp sem stuðningsmenn Katrínar á þessari stundu, sé fólk sem er býsna ákveðið í afstöðu sinni og mun tala máli hennar um allt land næstu daga og vikur. Það eru góðar fréttir fyrir hana, því fjórðungur landsmanna og jafnvel nær þriðjungi hefur verið að styðja hana í nýlegum skoðanakönnum.

Takist Katrínu að vinna í lausafylginu, nýta styrkleika sína í sjónvarpskappræðum og benda á hið augljósa, að persónuárásir af þessum toga beinist aldrei að fólki sem ekki skiptir máli, heldur einmitt þeim sem öðrum stendur stuggur af, eru vonir hennar um góða niðurstöðu hinn 1. júní umtalsverðar.

Í kosningabaráttu er aldrei gott að toppa of snemma. Það muna þeir sem töldu Þóru Arnórsdóttur öruggan sigurvegara í baráttunni fyrir tólf árum, þegar hún kom inn eins og stormsveipur og mældist á þessum tímapunti með næstum því fimmtíu prósent fylgi. Fljótlega fjaraði hratt undan því, eftir því sem fleiri tækifæri gáfust til að bera hana beint saman við Ólaf Ragnar Grímsson og um leið og hann fór að svara fyrir sig að vestfirskum sið.

Það er enn langt til kosninga og spennan vex með hverjum deginum.

Viljinn mun næstu daga rýna í stöðu og möguleika efstu frambjóðenda, skv. skoðanakönnunum til forseta Íslands. Næst verður sjónum beint að Baldri Þórhallssyni, prófessor.