Kenna sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð en koma svo með þetta útspil

Vilhjálmur Birgisson, varaforseti ASÍ.

„Í fyrsta lagi var búið að taka ákvörðun um barnabæturnar fyrir áramót, það var blaðamannafundur um það sl. haust. Ég verð að segja að ég átti líka von á því að flokkar sem kenna sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð kæmu með eitthvað bitastæðara en eitthvað útspil sem á ekki að taka gildi fyrr en eftir ár. Ég átti líka von á sömu krónutölulækkun skatta á láglaunafólk og hátekjufólk,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og varaforseti ASÍ, í samtali við Viljann, um skattatillögur ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í gær.

Verkalýðshreyfingin hefur brugðist illa við þessum tillögum, t.d. hefur Miðstjórn ASÍ lýst verulegum vonbrigðum með þær, sama gerir stjórn BSRB og eins þau fjögur félög sem höfðu skotið sínum deilum við Samtök atvinnulífsins til Ríkissáttasemjara.

Vilhjálmur segir grundvallaratriðið vera flata krónutöluhækkun, 81 þúsund á ári, fyrir alla sem eru með undir 325 þúsund í mánaðarlaun.

„En okkur finnst þetta ekki stemma og erum að kalla eftir nánari upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu, það virðist eitthvað fleira óljóst sem lýtur að persónuafslættinum. Þetta eru aðeins rúmlega sex þúsund kr.  á mánuði sem er miklu minna en okkar væntingar stóðu til og svo væntum við þess að breytingarnar tækju strax gildi, en ekki eftir ár,“ segir Vilhjálmur.