Kennarar vilja loka leik- og grunnskólum og færa alla kennslu á Netið

Af vef Reykjavíkurborgar.

Mikil og vaxandi óánægja er meðal kennara í leik- og grunnskólum landsins með þá ákvörðun fræðslu- og heilbrigðisyfirvalda að halda skólastarfi óbreyttu þrátt fyrir samkomubannið af völdum Kórónuveirunnar. Forysta kennara fundaði í vikunni og lagði tillögu fyrir menntamálaráðherra um að allt skólahald yrði fært í fjarkennslu utan sérstakra athvarfa sem yrðu sett á laggirnar fyrir börn framlínufólks, t.d. í heilbrigðisþjónustu.

Viljinn hefur rætt við innanbúðarfólk í stjórnsýslunni og fjölmarga kennara og skólastjórnendur. Þeir undrast að tilrauninni með opna skóla sé haldið áfram og hafa áhyggjur af vaxandi veikindum meðal kennara á ýmsum aldri. Fyrir liggi að nokkrir kennarar, frá fimmtudagsaldri og til sjötugsaldurs, glími nú við Kórónaveiruna.

Kennararnir segja að þótt ekki hafi komið upp mjög mörg tilfelli um smit hjá börnum í leik- og grunnskólum, sé engum vafa undirorpið að þau geti borið smit sín á milli og til fullorðinna. Þá séu mörg dæmi um að börn sæki skóla frá heimilum þar sem foreldrar eru í sóttkví og slíkt geti boðið hættunni heim.

Forysta kennara hefur ekki valdið í þessum efnum, en hún lagði fram tillögu um lokun skóla á fundi síðastliðinn þriðjudag. Átti lokunin að taka gildi tveimur dögum síðar, eða nú á fimmtudag. Samkvæmt heimildum Viljans komu kennarar því skýrt á framfæri við fulltrúa stjórnvalda að kennarar og skólastjórnendur séu best til þess fallnir að skera úr um hvort unnt sé að fara eftir ákvæðum sóttvarnalaga í skólum við núverandi aðstæður, ekki sóttvarnalæknir sjálfur eða landlæknir.

„Þetta var stutt góðum rökum. Starfsemi skóla og leikskóla leyfir ekki í framkvæmd að virtar séu sóttvarnarreglur. Punktur,“ sagði áhrifamaður meðal kennara við Viljann.

Sá bætti við að höfuðáhersla hafi verið lögð á að setja upp vel skipulögð athvörf fyrir börn heilbrigðisstarfsfólks, bæði á leikskóla- og grunnskólastigi samhliða almennri lokun skólanna. Kennarar geti sinnt nemendum sínum mun betur séu allir á heimilum og athvörfum. Það sé mjög slitrótt og ómarkvisst starf að hlaupa í mjög breytilegan hóp örfárra barna sem hópað er til skóla. Mun betra sé að sinna öllum eins á sama stað, það er að segja hinum megin við skjáinn. 

Stressaðir og hræddir kennarar á hlaupum í skólana sé ekki leiðin. Það gangi mjög vel að halda utan um hópana heima.