Kínverjar hækka skyndilega tölu látinna um 50%

Kínverjar, sem legið hafa undir ásökunum um að segja ekki allan sannleikann um útbreiðslu kórónuveirunnar eða tölu látinna, viðurkenndu í dag að 50% fleiri hefðu látist af völdum veirunnar í borginni Wuhan, en hingað til hefur verið gefið upp. Þeir hafna því með öllu að hafa vísvitandi hylmt yfir raunverulega stöðu mála.

Zhao Lijian, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði að eftir nákvæma yfirferð, meðal annars á tilfellum utan sjúkrahúsa, sé ljóst að bæta þurfi 1.290 andlátum við. Það þýðir að uppfærð tala látinna í Kína er 3.869 og dregur þetta ekki úr samsæriskenningum um að manntjón í landinu og fjöldi sýktra sé miklu hærri en yfirvöld vilja vera láta.

„Það er enginn að hylma yfir neitt og við munum ekki taka þátt í slíku,“ sagði talsmaðurinn. Á það er þó bent að erlendum blaðamönnum sem spyrja erfiðra spurninga er tafarlaust vísað úr landi; Kínverjar sem gagnrýnt hafa stjórnvöld fyrir viðbrögð við veirunni hafa horfið sporlaust og fyrir liggur að læknar sem fyrst bentu á hinn nýja sjúkdóm, voru áminntir að lögum fyrir að breiða út falsfréttir.

Trump Bandaríkjaforseti hefur gefið í skyn að opinberar tölur frá Kína virðist óeðlilega lágar og Macron Frakklandsforseti hefur sagt að augljóslega hafi margt gerst í Kína sem enn sé ekki komið fram í dagsljósið.