Li Lanjuan, prófessor í læknisfræði og einn helsti sérfræðingur Kínastjórnar í Kórónaveirufaraldrinum, óttast að Kína verði nú fyrir barðinu á annarri bylgju smita — að þessu sinni erlendis frá.
Kórónaveiran á auðvitað upptök sín í Wuhan-héraðinu í Kína og talin hafa smitast þar millum manna fyrir áramót og breiðst síðan yfir heimsbyggðina. Merkilega vel virðist hafa tekist að hefta nýsmit innanlands að undanförnu, en nú fer smitum fjölgandi hratt sem telja má öruggt að hafi komið til landsins erlendis frá.
Prófessorinn segist mjög áhyggjufull yfir því að þessi þróun geti kallað aðra meiriháttar farsótt yfir þjóð sína.
Kína hefur meira og minna verið lokað frá umheiminum sl. tvo mánuði og íbúar þessa fjölmenna lands haldið sig heima í sóttkví og einangrun. Jákvæð merki um að faraldurinn sé í rénun hefur aukið bjartsýni fólks og að hægt verði að slaka á takmörkunum á ferða- og athafnafrelsi fólks, en nýjustu tíðindin um aukinn fjölda nýsmita að utan gæti sett verulegt strik í þann reikning.
„Borgir á borð við Beijing, Shanghai, Guanzhou, Shenzen og Hangzhou eru galopnar fyrir alþjóðlegum samgöngum,“ segir hún og lagði áherslu á að finna yrði alla þá sem bæru smit án þess að hafa verið skimaðir, svo þeir haldi ekki áfram að breiða veiruna til annarra.
Læknar í Guanzhou, höfuðborg Guangdong-héraðs, hafa tilkynnt um nýsmit í manni sem kom nýlega til landsins frá Tyrklandi. Mörg sambærileg dæmi eru að koma upp þessa dagana.