Kjarapakki heimilanna myndi skila miklum ávinningi

Eyþór Arnalds kynnir tillögurnar í morgun. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

„Hér getur Reykjavík lagt lóðir á vogarskálarnar,” sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins á blaðamannafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur, þar sem hann kynnti Kjarapakkann, tillögu í fjórum liðum sem Sjálfstæðismenn ætla að leggja fyrir borgarstjórn og er ætlað að vera framlag Reykjavíkurborgar í kjaraviðræðurnar sem nú standa yfir. Aðgerðirnar snúa að lækkun launaskatts, gjöldum heimilanna, húsnæðismálum og sérstökum sköttum borgarinnar.

Tillögurnar eru þessar:

„Lækkum launaskatt (útsvar) í 14%:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að álagningarhlutfall útsvars fyrir tekjuárið 2019 verði 14,00% frá og með 1. maí nk. en útsvarið er nú í lögbundnu hámarki eða í 14,52%.

Fyrir fjölskyldu með tvo fyrirvinnandi á meðallaunum* myndi þetta skila þeim árlega 84.000 kr. aukalega í vasa heimilisins.

Fjölskyldan þyrfti að vinna aukalega fyrir andvirði 139.000 kr. til þess að fá jafn miklar tekjur eftir skatta og lífeyrisgreiðslur.

Bætt innkaup:

Lagt er til að aðgerðin verði fjármögnuð með bættum innkaupum sem felast í auknu aðhaldi og útboðum hjá öllum sviðum borgarinnar.

Reykjavíkurborg tekur meira en ríkið af launum. Launaskattur (útsvar) er í lögleyfðu hámarki í Reykjavík og tekur borgin meira af launum fólks en nokkurt annað sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu.

Reykjavíkurborg tekur meira en ríkið af launum.

Lækkum rekstrargjöld heimilanna um 36.000 krónur:

Lagt er til að borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að lækka rekstrargjöld heimilanna, sem nemi tölunni 36 þúsund krónum á heimili í borginni að jafnaði á ársgrundvelli.

Fyrir fjölskyldu með tvo fyrirvinnandi á meðallaunum* myndi þetta skila þeim árlega 36.000 kr. aukalega í vasa heimilisins.

Fjölskyldan þyrfti að vinna aukalega fyrir andvirði 60.000 kr. til þess að fá jafn miklar tekjur eftir skatta og lífeyrisgreiðslur.

Lagt er til að fjármagna aðgerðina með breyttum arðgreiðsluáformum.

Frá blaðamannafundinum í Ráðhúsinu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hlýða á framsögu oddvitans Eyþórs Arnalds. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

Áform standa til ríflega 13 milljarða arðgreiðslna næstu fimm árin. Sömu fjárhæð mætti nýta til gjaldskrárlækkana sem að meðaltali myndu spara hverju heimili í borginni á bilinu 50 til 60 þúsund krónur árlega.

Samþykki borgin fyrsta og annan lið kjarapakkans mun það jafngilda því að fjölskylda með tvær fyrirvinnur á meðallaunum m.v. árið 2017 fái u.þ.b. 200 þúsund krónur í viðbótarlaunagreiðslur á ársgrundvelli.

Aðgerðirnar auka ráðstöfunartekjur þessara heimila samanlagt um 120.000 kr. eftir skatta.

Hagstætt húsnæði:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að semja við ríkið um kaup á Keldnalandinu án skilyrða um aðrar fjárveitingar ríkisins.

Borgin hefjist tafarlaust handa við skipulagningu Keldnalandsins fyrir stofnanir, fyrirtæki og heimili.

Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að leiða skipulagsvinnuna.

Enn fremur verði lögð sérstök áhersla á að skipuleggja lóðir fyrir hagstætt húsnæði, sem sárlega vantar í borginni.

Jafnframt verði fallið frá sérstökum innviðagjöldum enda álitamál hvort slík gjöld standist. Aðgerðin í heild sinni verði liður í innleggi borgarinnar í kjaraviðræðum.

Forsvarsmenn verkalýðsfélaganna hafa sagt að ekki verði skrifað undir kjarasamninga nema fyrir liggi skuldbindandi samkomulag um að bæta aðstæður fólks á húsnæðismarkaði.

Byggingarréttargjöldum stillt í hóf:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að stilla byggingarréttargjöldum í borgarlandinu í hóf með því að tryggja nægt framboð fjölbreyttra lóða.

Byggingarréttargjöld í Reykjavík hafa veruleg áhrif á húsnæðiskostnað hvort sem viðkomandi er að greiða af lánum eða leigja

Skortur á hagstæðum lóðum í Reykjavík hefur leitt til þess að byggingarréttargjald hefur haldist hátt.

Sem dæmi má nefna að 25 þúsund kr. lækkun á byggingarréttargjaldi á fermetra myndi lækka leigu á 90 fermetra íbúð um 100 þúsund krónur á ári.

Aðgerðin getur lækkað húsnæðiskostnað um allt að 100 þúsund krónur á ári.“