Kjartan settur ríkislögreglustjóri og nýtt lögregluráð stofnað

Kjartan Þorkelsson, settur ríkislögreglustjóri.

Dómsmálaráðherra tilkynnti í dag um stofnun lögregluráðs og þá hefur Haraldur Johannessen óskað eftir lausn frá störfum sem ríkislögreglustjóri frá og með næstu áramótum.

„Um er að ræða formlegan samráðsvettvang lögreglustjóra sem byggist á því markmiði að efla samráð og tryggja hæfni lögreglunnar til að takast sameiginlega á við þær áskoranir sem uppi eru hverju sinni. Í lögregluráði munu eiga sæti allir lögreglustjórar á landinu, auk ríkislögreglustjóra sem verður formaður ráðsins.

Gert er ráð fyrir að ráðið fundi mánaðarlega og fari yfir samstarfsverkefni embættanna, verklag, framþróun og stefnu lögreglunnar.

Ríkislögreglustjóri fer áfram með málefni lögreglu í umboði ráðherra en skylt verður að bera veigamiklar ákvarðanir undir lögregluráð og leita eftir sjónarmiðum ráðsins um stefnumótun, sameiginleg útboð og ákvarðanir um að fela einstaka embætti lögreglustjóra lögregluverkefni á landsvísu svo dæmi sé tekið. Ráðið mun taka til starfa 1. janúar 2020,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Starfslokasamningur gerður

Þá hefur Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri óskað eftir því að láta af störfum frá og með næstu áramótum og að gerður verði starfslokasamningur við hann.

Kjartan Þorkelsson, lögreglustjórinn á Suðurlandi, verður settur í embætti ríkislögreglustjóra þar til nýr ríkislögreglustjóri hefur verið skipaður.

„Ég kynnti einnig áform mín um að styrkja eftirlit með störfum lögreglu. Meðal þess sem helst er til skoðunar er hvort rétt sé að nefnd um eftirlit með störfum lögreglu fái sjálfstæðar rannsóknarheimildir, auknar fjárheimildir, hvort auka þurfi sjálfstæði hennar, hvort útvíkka eigi starfssvið hennar og jafnframt hvort og hvernig aðkomu þingsins að eftirliti með lögreglu sé best fyrir komið.

Stærri stofnanabreytingar innan lögreglunnar eru einnig til skoðunar í ráðuneytinu svo sem sameining embætta og tilfærslur á verkefnum. Lögð er áhersla á að slíkar ákvarðanir verði teknar af yfirvegun og að vel ígrunduðu máli með það að markmiði að styrkja þjónustu lögreglu í þágu samfélagsins í samvinnu við nýjan ríkislögreglustjóra og nýtt lögregluráð,“ segir Áslaug Arna.