Kjöraðstæður til viskígerðar á Íslandi

Auk íslensks vatns er íslenskt bygg uppistaðan í íslensku viskíi. Mynd/Erna Ýr Öldudóttir

Stundum er talað um Garðabæ sem „svefnbæ“ þar sem fjölskyldufólk býr fjarri ys og þys höfuðborgarinnar. En bærinn leynir á sér og þegar vel er að gáð má finna þar viskí-verksmiðju, en Viljinn heimsótti Eimverk, sem framleiðir Flóka-viskí á dögunum. Heimsókn í fyrirtækið er í öðru sæti yfir 121 spennandi hluti til að gera á höfuðborgarsvæðinu á Tripadvisor, á eftir heimsókn í Hallgrímskirkju. Haraldur Þorkelsson (Halli) er framkvæmdastjóri Eimverks,, fjölskyldufyrirtækis í Garðabæ.

Heimsókn í viskígerðina er vinsæl hjá ferðamönnum. Mynd/Erna Ýr Öldudóttir

Um það hversvegna fjölskyldan ákvað að fara út í að framleiða viskí segir Halli: „Það var lengi draumur að gera íslenskt viskí. Við höfum gaman af ferlinu og framleiðslunni og áttum smá jörð þar sem við ræktum bygg, svo að það lá beint við að prófa. Þetta er eins og sumar hugmyndir, þær vinda upp á sig. Þetta var bara hobbý fyrst (byrjaði 2009) en svo var þetta bara svo skemmtilegt“. Aðspurður segir Halli að bakgrunnur eigenda fyrirtækisins er fjölbreyttur, en hann sjálfur er verkfræðingur sem starfaði áður við hugbúnaðargerð.

Grænasta viskí í heimi

„Hundrað þúsund flöskur eru gerðar á ári og hér er ekki markaður fyrir alla framleiðsluna,“ segir Halli, en hún er þó einnig til sölu hérlendis í Vínbúðunum, flughöfninni og á nokkrum börum og veitingastöðum. „Okkar markmið er að taka þátt í heimsmarkaði með viskí og stefnan er sett á Kína og Japan í haust. Við höfum allt sem þarf, gott vatn, gott íslenskt bygg, íslenskar kryddjurtir, nóg af grænni orku og fullt af fólki sem vill spreyta sig á vöruþróun. En það þarf mikla þolinmæði, það þarf að bíða í tólf ár eftir tólf ára viskíi“. Það eina sem vantar séu íslenskar eikartunnur, en fyrirtækið hafi nú þegar gróðursett eikur til að í framtíðinni verði hægt að setja viskíið á íslenska eik. „Við erum líklega með grænasta viskí í heimi, en það var nú bara óvart.“

Kínverskt og íslenskt brennivín fyrir Kínamarkað. Mynd/Erna Ýr Öldudóttir

„Við byrjuðum ekki að framleiða fyrr en árið 2011 með stofnun fyrirtækisins, framan af var þetta tilraunastarfsemi og grunnurinn var lagður. Viskí er vara sem tekur langan tíma, svipað og að rækta skóg. Það tekur tólf ár að gera tólf ára viskí.“ Samkvæmt evrópskum reglum þarf varan að vera á eikartunnum í amk. þrjú ár, til að mega kallast viskí (e. single malt whiskey). „Ungmaltið (e. Young Malt) okkar má t.d. ekki selja sem viskí á evrópskum mörkuðum, en það hefur verið á tunnum í eitt og hálft ár“. Reglurnar eru þó rýmri annarsstaðar í heiminum, en það fer þó eftir tegundum og vöruflokkum.

„Megin varan okkar er single-maltið og svo eldra viskí í framhaldinu. Ungmaltið er líka skemmtilegt, það er sett á nýja ameríska eik sem er líkara amerísku viskíi. Fyrstu þrjú árin vorum við að brugga, eima og prófa – komast að því hvað sé íslenskt viskí. Við gerðum 165 tilraunir á þremur árum og fengum þá sem þorðu til að smakka. Finna út hvernig við gætum notað íslenskt hráefni til að gera okkar viskí. Það er mikil viskísaga í heiminum, evrópsk, amerísk og japönsk. Við vildum líka bera virðingu fyrir sögunni og fáum lánaðar aðferðir og hugmyndir. Ungmaltið er þannig fengið Ameríkumegin, með nýrri eik og styttri tíma. Svo notum við þá tunnu aftur fyrir single-maltið. Við erum með double-wood viskí sem fer á birkitunnu, það er nýtt hjá okkur, en við erum líka með bjór- og sérrí-tunnur. Síðan erum við með taðreykt viskí, hið eina sinnar tegundar í heimi“.

Gin og ákavíti á verðlaunapalla

Spurður um það hvernig taðreykta viskíið sé að fara í menn segir Halli: „Reykt viskí er vel þekkt, mikið af skoskum viskíum eru reykt, oftast móreykt. Við hefðum getað gert það, en það er ekkert mikið eftir af mó hérlendis og það er ekki umhverfisvæn leið. Okkur fannst passa betur við hefðina að íslenskt viskí væri taðreykt, og það er að virka vel. Þeir sem vilja reykt viskí og finnst áhugavert að prófa. Vel reykt viskí er nú frekar „ruddalegt“, þannig að þetta fær ekkert teljandi á menn“.

En Eimverk framleiðir ekki einungis viskí úr íslensku byggi. Tækin má nota til að framleiða gin og brennivín, en kosturinn við þessar vörur er að þær komast, ólíkt viskíinu sem þarf að bíða lengi á tunnum, strax í sölu. Ginið heitir Vor og brennivínið Víti. Þessar tegundir hafa nú þegar unnið til verðlauna erlendis. Vor hefur fengið tvöfalt gullmerki í flokki gins og Víti einfalt gullmerki í flokki ákavíta á San Fransisco International Spirit Competition, einni virtustu keppni sinnar tegundar í heimi. Viskíið hefur enn ekki verið sent í keppni erlendis að sögn Halla, þar eð fyrirtækið vill ekki keppa fyrr en viskíið þeirra er orðið eldra.

Ginið og ákavítið hefur unnið til verðlauna erlendis. Mynd/Erna Ýr Öldudóttir

Íslenskt bygg hentar mjög vel

„Íslenskt bygg, eins og annað bygg af norðurslóðum, hentar mjög vel til viskígerðar, en síður til bjórgerðar. Tækin og aðstaðan bjóða upp á að vera með fleira en viskí. Ginið var fyrsta varan sem við settum á markað, því ekki þarf að bíða í mörg ár eins og eftir viskíinu. Það passar líka mjög vel við íslenska byggið og okkar stíl. Upprunalega ginið, eða sjenever, er mjög líkur okkar gini, þríeimað úr byggi með einiberjum“. Með tímanum hafi orðið samþjöppun á markaði með sterk vín og afleiðingin hafi verið fjöldaframleiðsla og að sérstaða og sérkenni hafi tapast. En í dag séu menn að fara til baka í bjórnum og sérstök framleiðsla minni brugghúsa hafi náð miklum vinsældum. Búast megi við því að svipað kunni að gerast á mörkuðum með sterkt áfengi, þar sem handverk og að prófa að framleiða eins og gert var á 19. öldinni sé að ná auknum vinsældum.

Halli sýnir eimingartækin þar sem gin og viskí verður til. Mynd/Erna Ýr Öldudóttir

„Viskíið er þó kannski sú tegund sem aldrei fór þaðan, menn héldu áfram að gera það með gömlu aðferðinni. En við lögðum okkur fram við að búa til gin eins og við værum t.d. á Eyrarbakka í bakhúsi í gamla daga. Þetta þýddi að við urðum að nota það sem var til hér, við áttum ekki sítrusávexti og notuðum rabarbara í staðinn. En þannig búum við til alveg einstakt íslenskt gin og það hefur fengið mikla viðurkenningu. Tvöfalt gullmerki er viðurkenning sem er mjög erfitt að fá, en það þýðir að dómnefndin öll gefur hæstu einkunn í blindu prófi“. Fjórtánhundruð tegundir af gini keppa á ári að sögn Halla, og aðeins þrjár til fjórar komast í þennan flokk. Víti hlaut einnig einfalt gullmerki í flokki ákavíta. „Fyrir okkur eru viðtökur neytenda þó mikilvægastar“.