Kjörbréf gefin út á grundvelli endurtalningar í Norðvestur: Boltinn sendur til rannsóknar Alþingis

Landskjörstjórn kom saman nú síðdegis og úthlutaði þingsætum til frambjóðenda skv. XVI. kafla laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis. Úthlutunin byggðist á skýrslum yfirkjörstjórna um kosningaúrslit í kjördæmum eftir alþingiskosningarnar sem fram fóru laugardaginn 25. september 2021 og byggir á leiðréttum tölum úr Norðvesturkjördæmi eftir endurtalningu atkvæða þar, svo sem frægt er orðið.

Landskjörstjórn gaf jafnframt út kjörbréf til þeirra frambjóðenda sem náðu kjöri og jafnmargra varamanna.

Athygli vekur að landskjörstjórn segist ekki hafa borist staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis á að meðferð og varðveisla kjörgagna á talningarstað í kjördæminu hafi verið fullnægjandi.

„Hlutverk landskjörstjórnar er nánar afmarkað í stjórnarskrá og lögum um kosningar til Alþingis. Ákvæði þeirra gera ekki ráð fyrir því að landskjörstjórn geti haft afskipti af störfum yfirkjörstjórna, til að mynda gefið þeim fyrirmæli um framkvæmd talningar eða mælt fyrir um endurtalningu. Hins vegar verður að líta svo á, einkum með vísan til 106. og 105. gr. laga um kosningar til Alþingis, að það sé hlutverk landskjörstjórnar að leiða sem best í ljós hvaða upplýsingar og gögn frá yfirkjörstjórnum kjördæma liggja til grundvallar við vinnu landskjörstjórnar um úthlutun þingsæta. Hefur landskjörstjórn þá jafnframt í huga mikilvægi þess að almennt ríki traust um framkvæmd kosninga.

Í samræmi við framangreint og samkvæmt 106. gr., sbr. 105. gr. laga um kosningar til Alþingis telur landskjörstjórn sér skylt að úthluta þingsætum, kjördæmissætum og jöfnunarsætum, á grundvelli skýrslna um kosningaúrslit sem henni berast frá yfirkjörstjórnum. Fellur það utan valdsviðs landskjörstjórnar að taka afstöðu til hugsanlegra ágalla á framkvæmd kosninga í einstökum kjördæmum eða hvort, og þá hvaða, áhrif slíkt hafi á gildi kosninga. Leggur landskjörstjórn áherslu á að í samræmi við 46. gr. stjórnarskrárinnar er það hlutverk Alþingis að úrskurða um hvort til staðar kunni að vera þeir gallar á framkvæmd kosninga sem ætla megi að hafi haft áhrif á úrslit þeirra, sbr. einnig 3. mgr. 120. gr. laga um kosningar til Alþingis,“ segir á vef landskjörstjórnar.

Nánar má lesa skýrslu landskjörstjórnar og hverjir fengu kjörbréf hér.