Kjósendur vilja breytingar á ESB samstarfinu

„Þessir lýðskrumarar, þjóðernissinnar, heimsku þjóðernissinnar, þeir elska heimalöndin sín,“ sagði Jean-Claude Juncker forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), í viðtali við CNN á skrifstofu sinni í Brussel í síðustu viku. 

Juncker, sem nú er á útleið úr stöðu sinni, kvaðst jafnframt vera uggandi yfir ógninni sem steðji að Evrópusamvinnu, sem hann kallaði „aðalmarkmið ESB“, vegna þjóðernissinnaðra stjórnmálamanna.

„Þeim líkar ekki við þá sem koma frá fjarlægum löndum, mér líkar við þá sem koma frá fjarlægum löndum … við verðum að bregðast við öll sem eitt til að hjálpa þeim sem eru í lakari stöðu en við.“

Kjósendur elska þó kannski heimalandið meira

Fyrstu niðurstöður Evrópuþingkosninganna sýna að ótti hans gæti verið á rökum reistur, því að þátttaka í Evrópuþingkosningunum hefur ekki verið betri síðan árið 1994, eða 51% og niðurstaðan er sú, að klassískir hægri og vinstri flokkar nálægt miðju hafa tapað sögulega. Sigurvegarar í kosningunum virðast ætla að verða hægri þjóðernisflokkar, frjálslyndir og vinstri flokkar umhverfisverndarsinna, sem munu ná til sín talsverðum fjölda sæta á þinginu. Þó er óvíst að þeir nái að verða í meirihluta gagnvart Evrópuþingsætum hefðbundnari flokka nær miðju.

Samkvæmt greiningu franska blaðsins Le Monde, virðast flokkar í Evrópu yst til hægri ætla að fá 117 Evrópuþingsæti, hægri sjálfstæðissinnar 56, íhaldsflokkar 174 sæti, frjálslyndir- og miðjuflokkar 106 sæti, græningjar 78 sæti, sósíaldemókratar 153 sæti og flokkar yst til vinstri 38 sæti. Aðrir hægra og vinstra megin fengju 15 og 14 sæti. 

Ysta hægrið og ESB-efasemdarmenn

Fyrstu tölur frá Bretlandi sýna yfirburðasigur Brexit-flokks Nigel Farage, með 31,6% atkvæða og 21 þingsæti, á meðan Íhaldsflokkurinn fellur úr 13 sætum í 2 og Verkamannaflokkurinn fellur úr 14 sætum í 7.

Flokkur Emmanuel Macron, En Marche, virðist ætla að hljóta færri atkvæði, 22,1% en National Rally 23,3%, flokkur Marie Le Pen, í Frakklandi. Hún hefur í framhaldinu hrósað sigri og kallað eftir öflugu samstarfi flokka yst til hægri á Evrópuþinginu. Niðurstaðan þykir hafa laskað stefnu Macron í þá átt að dýpka Evrópusamstarfið enn frekar.

Matteo Salvini, leiðtogi Lega Nord á Ítalíu, fagnar stórsigri og fyrstu niðurstöður benda til þess að flokkur hans fái um 30% atkvæða og 28 Evrópuþingsæti. Samstarfsflokkur hans, popúlistaflokkurinn Fimm stjörnur, stefnir í að fá um 20% atkvæða. Viktor Orbán fagnar einnig sigri í Ungverjalandi, þar sem flokkur hans mun hljóta 13 af 21 sæti landsins á Evrópuþinginu. 

Hægri þjóðernisflokkurinn Alternativ für Deutschland (AfD) fékk aðeins 11%, talsvert lakari árangri en spáð hafði verið. AfD lenti þó í efsta sæti í sumum héruðum fyrrum Austur-Þýskalands.

Vox á Spáni fékk þrjú sæti, eftir að hafa fengið fimmtu bestu niðurstöðu þar. Svíþjóðardemókratarnir bættu við sig einu sæti, en Danski þjóðarflokkur Piu Kjærsgaard, féll óvænt úr fjórum sætum í eitt. Niðurstaðan ætti að valda henni áhyggjum fyrir næstu þingkosningar í Danmörku. Flokkur Geert Wilders í Hollandi, PVV, tapaði einnig mörgum sætum.

Ysta vinstrið og græningjar

Í Þýskalandi töpuðu Kristilegir Demókratar (CDU), fóru úr 35% í 28% og Sósíaldemókratar (SDU) úr 27% í 15,5%, en þeir mynda saman bandalag undir forystu Angelu Merkel kanslara Þýskalands. Græningjar unnu stóran sigur og búist er við að þeir hljóti yfir 20% atkvæða.

Græningjar hlutu einnig 13,1% atkvæða í Frakklandi eða þriðju bestu niðurstöðuna þar, og hlutu einnig gott gengi á Írlandi, í Finnlandi og Portúgal, en umhverfisverndar-undrabarnið Greta Thunberg virðist þó ekki vera spámaður í sínu heimalandi, Svíþjóð. Flokkur umhverfisverndarsinna tapaði þar tveimur sætum.

Eina landið þar sem sósíalistar fengu flest sæti var á Spáni.

Frjálslyndir og flokkar nálægt miðju

Í Austurríki, Póllandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Portúgal, Hollandi, Lúxemborg, Grikklandi, Tékklandi, Lettlandi, Litháen, Slóvakíu og á Írlandi virðast frjálslyndir, íhaldsflokkar og sósíaldemókratískir flokkar hafa unnið flest Evrópuþingsæti. Mörg þessara landa eru þó hvert um sig með tiltölulega fá sæti. Frjálslyndir demókratar unnu þó stóran sigur í Bretlandi, með 20,3% atkvæða og 14 sæti, og voru næstir á eftir BREXIT-flokknum þar.

Forsætisráðherra Grikklands hefur ákveðið að flýta þingkosningum í kjölfar niðurstaðna, en stjórnarandstöðuflokkur íhaldsmanna fékk 33,5% atkvæða gegn 20% atkvæða sem flokkur hans hlaut.

Skilaboðin eru breytingar

Fyrstu niðurstöður kosninganna sýna að kjósendur vilja breytingar á ESB samstarfinu. Ekki er ólíklegt að miðjublokkirnar nái að halda naumum meirihluta – en gætu styrkt sig ef þeir ná að mynda gott samstarf við frjálslynda sem þykja hafa komið óvænt sterkt inn í kosningunum. Kjósendur hafa þó sent skýr skilaboð um að óskað sé eftir breytingum á umhverfismála- og magninnflytjendastefnu ESB. Niðurstöður í hverju landi um sig gætu einnig gefið góðar vísbendingar um hvað kjósendur munu vilja í næstu þingkosningum.