„Það er ótrúlegt til þess að hugsa að bara fyrir þrem árum gaf Reykjavíkurborg hagnaðardrifnum stórfyrirtækjum um 10 milljarða króna, varlega reiknað, i formi byggingaréttar. Í gær samþykkti borgarstjórn að taka erlent lán uppá 15 milljarða til þess að standa straum af viðhaldskostnaði vegna skólahúsnæðis í borginni,“ segir Hilmar Þór Björnsson arkitekt í færslu á fésbókinni í tilefni af fréttum um að hundrað milljóna evra lán Reykjavíkurborgar hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins (CEB) eigi að gera borginni kleift að halda áfram umfangsmiklu viðhaldsátaki í skólahúsnæði borgarinnar.
Hilmar spyr í færslu sinni hvort þetta viðhaldsleysi hafi átt að borgaryfirvöldum á óvart.
Og hann bætir við:
„Ég sótti flesta fundi fyrrverandi borgarstjóra í Tjarnarsal Ráðhússins þar sem hann talaði af sannfæringu um þéttingu byggðar, Borgarlínu, Miklubraut í stokk, ferðamannaborgina Reykjavík, athafnaborgina Reykjavík, ferðaborgina Reykjavík, listaborgina og menningaborgina Reykjavík og svo framvegis.
Allt var eins og blómstrið eina í Reykjavíkurborg.
Hann heillaði mig uppúr skónum, og flesta sem á hlýddu. Hann sannfærði alla og við klöppuðum öll.
En nú kemur á daginn að borgarstjórn gaf milljarða til öflugra hagnaðardrifinna fyritækja og taka þrem árum síðar erlent lán til þess að viðhalda skólahúsnæði í borginni.
Og hver á að greiða þessa 15 milljarða?
Ég upplifi þetts sem “klámhögg” i garð okkar borgarana.“