Klappir grænar lausnir fá loftslagsviðurkenningu

Hrönn Ingólfsdóttir, stjórnarformaður Festu, Sigrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Klappa ásamt Líf Magneudóttir formaanni umhverfisráðs.

Klappir Grænar Lausnir hf fékk Loftslagsviðurkenningu Reykjavíkurborgar og Festu við hátíðlega athöfn í gær.

Klappir Grænar Lausnir er hugbúnaðarfyrirtæki sem vinnur að þróun og innleiðingu hugbúnaðarlausna í umhverfismálum.

Við valið á sigurvegaranum var m.a. horft til mikilvægis nýsköpunar, árangurs við að draga úr eigin losun gróðurhúsalofttegunda og ekki síst áhrifamáttarins sem felst í að bjóða lausnir sem gera öðrum kleift að bæta umhverfisfótspor sitt með margvíslegum hætti, að því er segir í rökstuðningi dómnefndar.

Lausnir og aðferðafræði Klappa, sem skráð eru í First North í Kauphöll Íslands, gerir viðskiptavinum félagsins kleift að tryggja lögfylgni við umhverfislöggjöf, minnka notkun orku og vatns, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og myndun úrgangs, en miða jafnframt að því að draga úr rekstrarkostnaði viðskiptavina og auka nýtingu hráefna og annarra framleiðslu- og þjónustuþátta.

Klappir leggja einnig áherslu á að draga úr losun í eigin rekstri, nota rafbíla, almenningssamgöngur og hjól og nýta sér fjarfundabúnað í stað þess að fljúga. Klöppum hefur tekist að draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í eigin rekstri.