Afsögn Donalds Tusks úr embætti forsætisráðherra Póllands og ósigur flokks hans í þingkosningum árið 2015 má rekja til þess að birt var frásögn af leynilegri upptöku á veitingastað. Tusk er nú forseti leiðtogaráðs ESB en sá sem skipulagði leynilegu upptökuna var handtekinn á Spáni laugardaginn 6. apríl.
Marek Falenta (43 ára), auðmaður að baki upptökunni, var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í Póllandi í desember 2016. Hann kom á fót „upptökukerfi“ á tveimur veitingastöðum í Varsjá sem sóttir voru af áhrifamönnum í stjórnmála- og viðskiptalífi landsins. Greiddi hann þjónum fyrir að setja af stað upptökutæki og skila afrakstrinum til sín.
Spænska lögreglan sagði að Falenta hefði verið tekinn fastur í lúxus-íbúð í strandbænum Cullera nálægt Valensíu.
„Þegar lögreglan kom að íbúðinni bað sambýlingur hins grunaða lögreglumennina að ganga strax inn þar sem hann [Falenta] hefði um leið og hann sá lögregluna hótað að kasta sér út af svölunum á níundu hæð,“ sagði fulltrúi lögreglunnar.

Þegar á reyndi tókst lögreglunni að telja Falenta hughvarf.
Spænska lögreglan sagði það eitt að um væri að ræða kaupsýslumann með upphafsstafina M.A.F. og hann hefði verið 67. á Wprost – lista yfir 100 auðugustu menn Póllands – árið 2013.
700 klukkustundir af ólöglegum upptökum
Joachim Brudzinski, innanríkisráðherra Póllands, staðfesti á Twitter að Falenta hefði verið handtekinn. Um væri að ræða manninn sem stóð að baki 700 klukkustunda leynilegum upptökum á samtölum áhrifamanna í stjórnmálum og viðskiptum.
Það tók að hrikta í stjórn Donalds Tusks árið 2014 eftir að útskriftir á neyðarlegum samtölum með þátttöku innanríkisráðherrans, fjármálaráðherrans, utanríkisráðherrans og samgönguráðherrans úr Borgaralegum vettvangi, stjórnmálaflokki hlynntum ESB, tóku að birtast í fjölmiðlum.
Á einni upptökunni kom fram að utanríkisráðherrann, Radislaw Sikorksi, gerði ekkert úr bandalagi Pólverja og Bandaríkjamanna, sagði það „einskis virði“ auk þess að lýsa David Cameron sem „óhæfum“ og sagði breska forsætisráðherrann hafa „klúðrað“ Evrópumálunum.
Donald Tusk baðst lausnar sem forsætisráðherra árið 2014 og varð forseti leiðtogaráðs ESB. Hneykslið sem birting á upptökunum olli leiddi til þess að stjórnarflokkurinn, Borgaralegur vettvangur, tapaði í kosningunum árið 2015. Við tók íhaldssamari Flokkur laga og réttlætis sem er nú við völd.
Pólsk yfirvöld gáfu út evrópska handtökuskipun á hendur Falenta eftir að hann flúði land til að komast hjá því að þurfa að afplána fangelsisvistina. Óljóst þykir hve lengi hann hefur búið á Spáni.
Pólsk yfirvöld krefjast framsals á Falenta og hefst ferli vegna þess nú fyrir dómstóli á Spáni.
Af vardberg.is, birt með leyfi.