„Í sögulegu samhengi eru stóru tíðindin í íslenskum stjórnmálum þessi:
Flokkurinn sem var vanur að tróna yfir öllum hinum, á 20. öldinni – gerir það ekki lengur. Flokkurinn, sem var myndaður úr frjálslyndum armi og íhaldssömum armi, er ekki lengur fær um að veita forystu og takast á við þær breytingar sem blasa við okkur á 21. öldinni; hann er klofinn – þvers og kruss.
Frjálslyndi vængurinn brotnaði í Viðreisn og fjaðrir úr þeim íhaldssama reitast nú til Miðflokksins. Fálkanum er að fatast flugið og hann er ósköp ráðvilltur.
Þetta eru stór tíðindi og aðrir flokkar þurfa að bregðast við. “
Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á flokksstjórnarfundi sem hófst í morgun, þar sem hann sagði þann tíma runnin upp í íslenskum stjórnmálum, að íslensk stjórnmál hætti að snúast um hvaða félagshyggjuflokkur það er hverju sinni sem hleypst undan merkjum og laumar sér í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
„Þetta fyrirkomulag passaði kannski við pólitískt landslag 20. aldarinnar en nú er öldin önnur og landslagið er breytt. Því fyrr sem umbótaöflin í samfélaginu skilja þetta, og taka höndum saman, því betra.
En hvaða skyldum hefur flokkurinn okkar að gegna við þessar aðstæður sem nú eru uppi í íslenskum stjórnmálum?
Við, Samfylkingin, verðum að tala skýrt og skorinort , bjóða fram trúverðuga forystu í málum og sýna að það er til önnur leið; það er betri valkostur í boði, fyrir fólkið í landinu,“ sagði Logi ennfremur.
Hann benti á að Samfylkingin eigi 20 ára afmæli á næsta ári, árið 2020, og sagan hafi verið „vissulega stormasöm, þó hún sé stutt, það er saga mikilla væntinga og vonbrigða, en margir mikilvægir sigrar hafi unnist á leiðinni.“
Viðurkenndi formaðurinn að kosningarnar 2016 hafi verið mikil vonbrigði vægast sagt og algjör niðurlæging fyrir stórhuga stjórnmálaflokk.
„En ég spyr, hvern hefði grunað að strax árið 2017 værum við komin til baka í þingkosningum og hefðum tvöfaldað fylgi flokksins , tvöfaldað þingmannafjölda Samfylkingarinnar? Og reyndar gott betur.“