Klúðrið í Norðvestur: Nei, boltinn er ekki hjá Alþingi

Klúðrið við framkvæmd talningar í Norðvesturkjördæmi í nýliðnum alþingiskosningum er þyngra en tárum taki. Lög um meðferð kjörgagna virðast hafa verið brotin og borið við einhverri heimilislegri sveitahefð, sem ekkert á skilið við mikilvægi málsins eða sess kosninga í stjórnkerfi okkar og lýðræðinu almennt.

Á Netinu ganga samsæriskenningar og fullyrðingar sem eru þess eðlis, að sómakært fólk neitar að trúa því að þar sé rétt með farið. Myndir frá talningarstað, sem birtust á samfélagsmiðlum, bæta ekki úr skák nema síður sé. Vandséð er hvernig tala auðra seðla getur breyst verulega milli tveggja talninga svo nemur nokkrum atkvæðum, því allir vita að annað hvort eru kjörseðlarnir auðir eða ekki. Hvernig var úrskurðað um vafaatkvæði í endurtalningu, þegar umboðsmenn framboðanna voru ekki nærri? Þá vekur furðu að leiðrétta þurfi innbyrðis milli flokka nokkra tugi atkvæða í tæplega tuttugu þúsund manna kjördæmi, því það jafngildir því að við endurtalningu í Kraganum eða Reykjavík kæmi fram þrefalt eða jafnvel fjórfalt stærri skekkja milli talningar og endurtalningar og slíkt þætti einfaldlega óhugsandi og myndi kalla á mjög alvarlega rannsókn. Til samanburðar leiddi endurtalning í hinu víðfeðma Suðurkjördæmi í ljós, að allt stemmdi upp á atkvæði, hvorki meira né minna.

Fjölmargir lesendur Viljans hafa sent honum þessa töflu yfir breytingar sem urðu á úrslitum kosninganna í Norðvesturkjördæmi milli fyrstu og seinni talningar. Ekki hefur tekist að sannreyna allar tölur hér, enda vill landskjörstjórn engu bæta við bókun frá í gær.

Greinilegt var á formanni landskjörstjórnar, Kristínu Edwald lögmanni, að henni var brugðið eftir fund nefndarinnar í gær. Það er skiljanlegt, því líklega hafa skoðanir verið mjög skiptar innan stjórnarinnar um það hvernig best er að takast á við þessa fordæmalausu stöðu. Í bókun nefndarinnar, sem Kristín las upp fyrir framan fréttamenn, sagði að ekki hefði borist staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis þess efnis að meðferð kjörgagna hefði verið fullnægjandi.

Það er engin smáyfirlýsing af hálfu formanns landskjörstjórnar, en aðspurð vildi hún engu bæta við þessa bókun og ítrekað að boltinn væri núna hjá Alþingi sem hefði það hlutverk samkvæmt stjórnarskrá að staðfesta úrslit þingkosninganna. Sagði hún að landskjörstjórn muni gera gleggri grein fyrir sinni vinnu á fundi með kjörbréfanefnd þegar kjörbréfum yrði úthlutað þann 5. október nk.

En er málið svona einfalt? Að nú sé Alþingis að taka þennan bolta og afgreiða mál sem þjóðin er hálf agndofa yfir?

Svarið er: Nei, alls ekki. Nýkjörið Alþingi getur nefnilega nefnilega ekki komið saman til eins né neins, nema úthlutað hafi verið kjörbréfum og þingmenn fengið staðfest með formlegum hætti að þeir eigi að mæta til þings og gegna þar skyldum sínum.

Og ef að landskjörstjórn hefur ekki borist fullnægjandi staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis til þess að geta gefið út kjörbréf, hvernig er þá ætlunin að það verði gert? Það sem vantaði í bókun formannsins eða svör hennar til fjölmiðla voru svör við þessum spurningum. Hvað þarf til að upplýsingarnar frá Norðvesturkjördæmi verði fullnægjandi? Eða eru svörin þar að lútandi komin og það einfaldlega mat landskjörstjórnar að framkvæmdin sjálf hafi ekki verið í lagi? Þá þarf bara að segja það, hversu ömurlegt sem það er í raun og veru.

Mál þróast við þessar furðulegu aðstæður á miklum hraða og nú í morgun var upplýst að fundi landskjörstjórnar þar sem gefa á út kjörbréf hafi verið flýtt um nokkra daga. Nú stendur þannig til að afgreiða kjörbréf nýrra alþingismanna áður en vikan er úti. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni, enda öll óvissa í þessum efnum ekki bara bagaleg heldur beinlínis óþolandi, en landsmenn eru þó engu nær um ætlan landskjörstjórnar.

Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Er hún að bíða eftir nýjum upplýsingum? Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, hefur sagt málinu lokið af sinni hálfu með greinargerð þar sem staðfest er að meðferð kjörgagna hafi verið fullnægjandi. Því er landskjörstjórn augljóslega ósammála. En hún vill ekki segja landsmönnum um hvað málið snýst. Varla ætlar hún á næstu dögum að gefa út kjörbréf á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga? Samræmist það lögum og stjórnarskrá?

Þegar Kristín las upp bókun landskjörstjórnar vísaði hún m.a. til 46. greinar stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið er á um að Alþingi skeri sjálft úr, hvort þingmenn séu löglega kosnir, svo og úr því, hvort þingmaður hafi misst kjörgengi.

Það er rétt, svo langt sem það nær, en þetta sama Alþingi getur ekki komið saman nema landskjörstjórn fallist annað hvort á fyrstu tölur sem kynntar voru í Norðvesturkjördæmi eða hinar seinni, og gefi í framhaldi út kjörbréf.

Heita kartaflan er því enn hjá Kristínu og félögum í landskjörstjórn, hvort sem þeim líkar betur eða verr, og svo verður það nýrra alþingismanna að ákveða hvort komnar eru fram nægar ástæður til að ógilda kosninguna í kjördæminu og boða í framhaldinu til svokallaðrar uppkosningar.

Allt er þetta auðvitað án fordæma og ömurlegt fyrir okkur sem lýðræðisríki. Úrslit uppkosningar, sem yrði að fara fram innan mánaðar, gæti orðið allt öðruvísi en þeirra kosninga sem fram fóru um liðna helgi. Ekki aðeins þingmenn Norðvesturkjördæmis þyrftu að setja sig í kosningastellingar; allir jöfnunarmenn í öllum kjördæmum þyrftu að óttast um sæti sitt, þar sem hringekjan færi aftur af stað og gæti snúist marga hringi. Ekki er víst að kjósendur sem taka þátt í uppkosningu kjósi það sama í seinna skiptið og hið fyrra, þegar þeir vita að stjórnarmeirihlutinn ríghélt og að atkvæði þeirra geti í reynd haft ótrúlega mikil áhrif um land allt.

Eitt er víst, að á þessari vitleysu þurftum við Íslendingar ekki að halda.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans.