„Komandi kosningar eru kannski mikilvægustu kosningar lýðveldistímans“

„Komandi kosningar eru kannski mikilvægustu kosningar lýðveldistímans,“ segir Gunnar Smári Egilsson, sem skipar efsta sæti lista Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. „Það er raunveruleg hætta á að næstu fjögur árin muni stæk hægristjórn þröngva upp á þjóðina einkavæðingu og niðurbroti grunnkerfa og innviða samfélagsins, ráðagerð sem auðvaldið kallar viðspyrnu. Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð, Sjálfstæðisflokkurinn og önnur baráttutæki hinna ríku hafa lagt línurnar og boðað stórkostlegar skattalækkanir til fjármagns- og fyrirtækjaeigenda, enn frekari fjáraustur úr almannasjóðum til hinna ríku, skerðingu á valdi og úrræðum verkalýðsfélaga og að lífsafkomu almennings verði fórnað fyrir aukinn hagnað hinna ríku. Sósíalistaflokkur Íslands er stofnaður til að veita auðvaldinu andspyrnu og hann ætlar að fella þessar ráðagerðir í komandi kosningunum. Sósíalistaflokkurinn er eini skýri valkosturinn gegn boðaðri árás auðvaldsins á almenning.“

Sósíalistaflokkurinn heldur áfram að kynna framboðslista sína í einstökum kjördæmum, enda styttist í kosningar. „Eins og sést á lista flokksins í Reykjavík er Sósíalistaflokkurinn breiður flokkur sem endurspeglar vel almenning,“ segir Gunnar Smári. „Það er ljúfur heiður að fá að leiða þessa fylkingu baráttufólks. Þarna er fólk sem hefur þegar sett mark sitt á umræðuna, hefur í raun leitt samfélagsumræðuna undanfarin ár, en líka fólk sem mun verða áberandi á næstu vikum, mánuðum og árum, jafnvel áratugum. Listinn ber með sér að það hreyfing að verða til.“

„Ég vil leggja áherslu á að öllum verði tryggt afkomu- og húsnæðisöryggi og að fólk sé frjálst frá hvers kyns ofbeldi og kúgun,“ segir Laufey Líndal Ólafsdóttir, sem er í öðru sæti listans. „Ég hef unnið að málefnum einstæðra foreldra og barna sem alast upp í óhefðbundnum fjölskyldugerðum. Og vil vinna að því að bæta stöðu geðheilbrigðismála, fíknimeðferðar og heilbrigðismála almennt. Hið opinbera á að gangast við ábyrgð sinni og veita sjálfsagða þjónustu gjaldfrjálst en sem fjármögnuð er með réttlátri skattheimtu.“

„Unga fólkið í landinu er komið með nóg af ósanngjörnum námslánum, ómögulegum húsnæðismarkaði og ört vaxandi áhyggjum af loftslagsmálum,“ segir Atli Gíslason, sem er í þriðja sæti listans. „Sósíalisminn hefur af þessum sökum höfðað sterkt til ungs fólks. Sósíalistaflokkurinn berst fyrir betri efnahagslegri stöðu fyrir námsmenn, betri húsnæðiskjörum fyrir stúdenta og aðgerðum í loftlagsmálum.“

„Ég trúi því að efnahagslegt réttlæti sé það mikilvægasta sem við berjumst fyrir,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sem er í fjórða sæti listans. „Ef við verkafólk stöndum saman, þau sem með vinnu sinni skapa efnahagsleg verðmæti samfélagsins og þau sem annast börn og gamalt fólk, látum ekki berja okkur til hlýðni, skiljum algjört grundvallarmikilvægi okkar í hagkerfinu, skiljum að við erum bókstaflega ómissandi, að án vinnu okkar stoppar allt; þá getum við náð raunverulegum árangri. Við getum unnið sigra. Við getum gert það sem við eigum allan rétt á að gera, mótað þjóðfélagið svo að okkur og börnum okkar sé boðin sú tilvera sem við eigum sannarlega skilið. Við skulum ekki að bíða eftir því að einhverjir aðrir taki það að sér, við skulum gera það sjálf.“