Kona úr bakvarðasveit handtekin: „Auðvitað hörmulegt atvik“

Hjúkrunarheimilið Berg. / bolungarvik.is

Kona úr bakvarðasveit Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sem starfað hefur í vikunni á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík var handtekin í morgun. Hún er grunuð um að hafa falsað skjöl um menntun og starfsleyfi sín sem sjúkraliði. Þá er hún grunuð um að hafa stolið eða reynt að stela lyfjum.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sendi frá sér tilkynningu þessa efnis í þann mund er daglegur upplýsingafundur Almannavarna hófst nú áðan. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, sagði á fundinum að málið væri á frumstigi og vörðust hann og Alma Möller landlæknis frekari fregna af málinu, en sögðu frekari upplýsinga um það að vænta á morgun.

Konan var færð í fangageymslur á Ísafirði þar sem tekið var stroksýni vegna mögulegs Covid-19 smits.

„Þetta er auðvitað hörmulegt atvik. Okkur fannst við vera að ná vopnum okkar en svo kemur þetta ofan í allt sem á undan er gengið. Skjölum um menntun og starfsreynslu var safnað þegar bakvarðasveitin var sett saman, en við höfum því miður ástæðu til að halda að hún hafi framvísað fölsuðum gögnum,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri HVest.

Ábendingar bárust í gærkvöldi og í nótt um að ekki væri allt með felldu og var strax byrjað að grípa til aðgerða. Málið var tilkynnt til lögreglu í morgun og var hún handtekin í kjölfarið. 

Ekki er útilokað að konan hafi verið útsett fyrir smiti af Covid-19 og því verður gripið til víðtækra varúðarráðstafana, til dæmis voru lögreglumenn í morgun í hlífðarfötum. Unnið er að því að tryggja að starfsemi hjúkrunarheimilisins raskist ekki og að öruggt sé að aðrir meðlimir í bakvarðasveit starfi áfram. Bakvarðasveit verður boðin áfallahjálp, að því er segir í tilkynningu.