Í gær tóku gildi flutningar á forstöðumönnum sendiskrifstofa í utanríkisþjónustunni. Með breytingunum eru konur nú í meirihluta forstöðumanna í tvíhliða sendiráðum Íslands í fyrsta sinn.
Breytingarnar sem nú taka gildi eru samkvæmt ákvörðun utanríkisráðherra en tilkynnt var um þær síðastliðið haust. Ekki er verið að skipa neina nýja sendiherra heldur er um að ræða reglubunda flutninga á forstöðumönnum sendiskrifstofanna.
Helga Hauksdóttir, fráfarandi skrifstofustjóri laga- og stjórnsýsluskrifstofu utanríkisráðuneytisins, verður sendiherra í Kaupmannahöfn í stað Benedikts Jónssonar, sem verður aðalræðismaður Íslands í Þórshöfn í Færeyjum. Pétur Gunnar Thorsteinsson, fráfarandi aðalræðismaður, kemur til starfa í ráðuneytinu. Þá verður María Erla Marelsdóttir, fráfarandi skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins, sendiherra í Berlín í stað Martins Eyjólfssonar, sem verður skrifstofustjóri alþjóða- og öryggisskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Jörundur Valtýsson, fráfarandi skrifstofustjóri, verður fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York í stað Bergdísar Ellertsdóttur. Hún verður sendiherra í Washington í stað Geirs H. Haarde en hann tók sæti aðalfulltrúa í stjórn Alþjóðabankans fyrir hönd kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja þann 1. júlí sl. Hermann Ingólfsson, sendiherra í Ósló, tekur við sem fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu af Önnu Jóhannsdóttur sem verður skrifstofustjóri laga- og stjórnsýsluskrifstofu ráðuneytisins. Ingibjörg Davíðsdóttir verður sendiherra í Ósló.
Ísland starfrækir 26 sendiskrifstofur í 21 ríki en sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur með útsendum starfsmönnum nefnast einu nafni sendiskrifstofur. Frá og með deginum í dag verða konur forstöðumenn 9 af 26 sendiskrifstofum Íslands (í Berlín, Kampala, Kaupmannahöfn, Lilongwe, Moskvu, Ósló, Stokkhólmi, Tókýó og Washington) og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Konur eru nú raunar meirihluti forstöðumannanna ef aðeins er litið til tvíhliða sendiráðanna (9 af 17) en það hefur aldrei gerst áður.
Í íslensku utanríkisþjónustunni eru nú starfandi 34 sendiherrar. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur enga sendiherra skipað í sinni utanríkisráðherratíð.