Kórónaveiran, sem fer nú eins og eldur í sinu um heimsbyggðina með þeim afleiðingum að landamæri lokast og sífellt fleiri jarðarbúar loka sig inni heima við, gæti á endanum valdið gleiri gjaldþrotum en andlátum.
Þetta segir þróunarhagfræðingurinn Omar Hassan í pistli í breska dagblaðinu Independent. Hann segir að flestir muni upplifa sterkustu afleiðingar veirunnar í atvinnumissi, uppnámi í húsnæðismálum og með því að fjöldi fyrirtækja neyðist til að leggja upp laupana.
Ríkisstjórnir margra landa eru þegar byrjaðar að grípa inn í atburðarásina til að koma í veg fyrir allsherjar kollsteypu. En efnahagslegar afleiðingar veirunnar eru þegar orðnar veruleiki fyrir hundruði milljóna manna, en tala látinna mælist enn í þúsundum.
Olíustríð er hafið, flóttamenn streyma í átt að landamærum Evrópusambandsins í Grikklandi og hlutabréfamarkaðir eru í frjálsu falli. Flugbransinn er í fullkomnu uppnámi og ferðaþjónusta víða um heim sér fram á ferðamannasumarið 2020 sem aldrei kom.
Hreinlæti og sóttvarnir eru mikilvægar sem aldrei fyrr, en ekki síður er mikilvægt að eyða efnahagslegri óvissu og koma í veg fyrir að skelfing rústi heilbrigðum fyrirtækjum og atvinnulífi í mörgum löndum. Ef almenningur getur ekki lengur greitt húsaleigu eða afborganir af húsnæðislánum gæti kollsteypan orðið miklu alvarlegri fyrir heimsbyggðina.