Kórónaveiran hættuleg fólki með fíknsjúkdóm: Ræðst á lungun og öndunarfæri

Á vefsíðu SÁÁ í dag er bent á að Dr. Nora Volkow, forstjóri bandarísku stofnunarinnar National Institute on Drug Abuse (NIDA) fjalli um kórónaveiruna á nýlegu bloggi sínu. Í umfjöllun sinni beini hún sjónum sínum að hugsanlegum áhrifum COVID-19 á fólk með fíknsjúkdóm.

„Dr. Volkow segir að vísindasamfélagið eigi að vera á varðbergi gagnvart þeim möguleika að kórónaveiran (COVID-19) gæti reynst sérstaklega hættuleg fyrir ákveðna hópa fólks með fíknsjúkdóm.

Kórónaveiran ræðst á lungu og öndunarfæri og gæti því verið mikil ógn fyrir fólk sem reykir tóbak og kannabis eða veipar.

Fólk í virkri ópíóðaneyslu eða örvandi vímuefnaneyslu gæti einnig verið útsettara vegna áhrifa þessara vímuefna á lungu og öndunarfæri.

Að auki eru einstaklingar í mikilli vímuefnaneyslu líklegri en aðrir til að vera án húsnæðis eða í fangelsi og þær aðstæður skapa meiri hættu á kórónuveirusmiti.

Samkvæmt dr. Volkow ættu þessir möguleikar að skoðast sérstaklega við eftirlit meðan unnið er gegn þessum heilbrigðisvanda,“ segir í pistlinum.

Grein dr. Noru Volkow er að finna á vef NIDA.