Kórónaveiran komin til Afríku: Bill Gates segir að 10 milljónir gætu látist

Auðjöfurinn Bill Gates, stofnandi Microsoft, segir að útbreiðsla Kórónaveirunnar í Afríku geti haft skelfilegar afleiðingar. Hann segir að heilbrigðiskerfi landa í álfunni ráði engan veginn við slíka sjúkdóma og farsóttin geti dregið tíu milljón manns til dauða.

Þetta sagði Gates á vísindaráðstefnu í Seattle í gær, en hann hefur lagt gífurlegt fjármagn á undanförnum árum ásamt konu sinni í það að bæta heilbrigðis- og menntakerfið í ýmsum Afríkuríkjum. Fyrsta smitið af kórónaveirunni í Afríku hefur nú verið staðfest, en það var í borginni Kaíró í Egyptalandi, að því er Lundúnablaðið Telegraph greinir frá.

Vísindamenn óttast mjög útbreiðslu veirunnar í Afríku sunnan Sahara, þar sem heilbrigðiskerfi er bágborið og veiran, sem virðist bráðsmitandi, gæti breiðst mjög hratt út. Engir innviðir séu fyrir hendi til að greina smitaða, hvað þá sinna þeim sem veikjast eða koma upp víðtækri sóttkví.

„Þetta er gríðarleg áskorun,“ sagði Gates. „Við höfum lengi vitað af hættunni á heimsfaraldri og því að hann gæti lagt heilbrigðiskerfi sumra landa í rúst með skelfilegum afleiðingum, en Afríka gæti orðið sérstaklega illa úti af þessum sökum,“ bætti hann við og nefndi að vísindamenn áætli að allt að 10 milljónir Afríkubúa geti dáið af völdum veirunnar, nái hún víðtækri útbreiðslu í álfunni, eins og óttast er að geti gerst.