Kosningar í Thüringen í Þýskalandi: Fylgið færir sig út á jaðarinn

Valkostur fyrir Þýskaland (AfD) bætti mestu fylgi við sig í Thüringen og urðu í öðru sæti. Mynd/Wikipedia

Niðurstaða kosninganna í Thüringen í Mið-Þýskalandi í gær er, að miðjuflokkarnir eru að þynnast mikið, þar sem kjósendur hafa fært sig í miklum mæli lengra út á hægrið og vinstrið. Vinstrið (þ. Die Linke) ásamt hægri flokknum Valkosti fyrir Þýskaland (þ. Alternativ für Deutschland, AfD) unnu stórsigur, á meðan íhaldsflokkurinn Kristilegir demókratar (CDU) töpuðu umtalsverðu fylgi síðan í kosningunum fyrir fjórum árum. Um þetta fjallar þýska blaðið Der Spiegel.

Kosningaþátttaka hefur ekki verið meiri í 25 ár, og sýnir greining á dreifingu atkvæða að stór hluti atkvæða þeirra sem kjósa oftast ekki (þ. nichtwählern), fóru til Vinstrisins sem hlaut 31% atkvæðanna og AfD sem fékk 23,4%. Þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem Vinstrið vinnur kosningar í þýsku héraði. Vinstrið bætti við sig með atkvæðum þeirra sem áður sátu heima, en einnig frá kjósendum sem áður kusu Sósíaldemókrata (SPD) eða Kristilega demókrata.  

Unga fólkið og verkalýðurinn kýs lengst til hægri

Björn Höcke er formaður AfD.

Sigurvegari kosninganna er þó AfD, sem bætti mestu fylgi við sig og hlaut næstflest atkvæði. AfD hlaut fjölmörg atkvæði frá fólki sem áður sat heima, kaus áður Kristilega demókrata eða jafnvel Vinstrið. Tapari kosninganna eru Kristilegir demókratar, sem hlutu aðeins 21,8% atkvæða, m.v. tæp 34% síðast. Alveg eins og í kosningunum í Saxlandi og Brandenburg, fóru fjölmörg þessarra atkvæða til AfD. Einnig töpuðu Sósíaldemókratar og Græningjar fylgi sem fór að mestu til Vinstrisins.

AfD fékk flest atkvæði unga fólksins, þ.e. allra yngri en 45 ára, en Vinstrið hlaut flest atkvæði allra 45 ára og eldri. Konur kusu Vinstrið í meira mæli en yfirgnæfandi fleiri karlmenn kusu AfD. Menntamenn kusu Vinstrið frekar, en minna menntaðir og ómenntaðir kusu heldur AfD. Lífeyrisþegar og skrifstofumenn kusu Vinstrið, opinberir starfsmenn kusu Kristilega demókrata og verkamannastéttin og sjálfstætt starfandi kusu helst AfD.

Breiða sátt þarf til að mynda starfhæfan meirihluta

Draga mætti þá ályktun að þýskir kjósendur séu smám saman að hafna stefnu Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og fyrrum formanns Kristilegra demókrata. Einnig að AfD hafi tekist að ræsa kjósendur sem vanalega mæta ekki á kjörstað, svipað og Donald Trump afrekaði í aðdraganda síðustu forsetakosninga í Bandaríkjunum.

Það gæti orðið erfiðleikum bundið að mynda starfhæfan meirihluta, af því að ýmist yrði Vinstrið að reyna að mynda meirihluta með Kristilegum demókrötum eða AfD, sem í sameiningu ná ekki meirihluta. Hinn möguleikinn væri að mynda fjögurra flokka meirihluta með smærri flokkum – en smáflokkur Frjálslyndra (FDP) hefur nú þegar gert það ómögulegt með því að hafna samstarfi við Vinstrið. Það lítur því út fyrir að ný stjórn héraðsins standi frammi fyrir því að mynda breiða sátt frá vinstri til hægri – svipað og íslenska ríkisstjórnin varð að gera eftir síðustu Alþingiskosningar.