„Kötudæmið er lokað og læst“: „Atkvæðin sem við þurfum eru hjá Baldri og Höllu T.“

Engum tilgangi þjónar að reyna að fá stuðningsmenn Katrínar Jakobsdóttur til að skipta um skoðun, segir Jón Ingi Gíslason, fv. formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur og stuðningsmaður Höllu Hrundar Logadóttur forsetaframbjóðanda. Hann telur að framboð Höllu Hrundar þurfi að beina spjótum sínum að Baldri Þórhallssyni og Höllu Tómasdóttur fram að kosningum.

„Atkvæðin sem við þurfum eru hjá Baldri og Höllu T. Þurfum að sækja þau þangað. Kötudæmið er lokað og læst,“ segir Jón Ingi á stuðningsmannasíðu Höllu Hrundar, þar sem miklar umræður hafa skapast í dag um ástæður þess að Halla Hrund er á mikilli niðurleið í skoðanakönnunum.

Jón Ingi, sem er vanur og snjall kosningasmali, segir í umræðuþræðinum að taka þurfi kosningabaráttuna nú föstum tökum. Engum tilgangi þjóni að reyna að taka atkvæði af Katrínu. „Þjónar engum tilgangi að vesenast í því. En nær allir sem dreifast á þessi þrjú vilja ekki Kötu þannig að það þarf að fá fólk til að kjósa þann sem getur komið í veg fyrir að hún vinni sem er Halla Hrund Logadóttir,“ bætir hann við.