Kristján tók af skarið með hvalveiðar þrátt fyrir andstöðu VG

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur í dag undirritað reglugerð sem heimilar áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu árin 2019–2023. Nær ákvörðunin til veiða á fimm ára tímabili, eins og fyrri reglugerð gerði. Andstaða Vinstri grænna og forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttir við áframhaldandi veiðar hefur verið ljós, en Kristján Þór tók engu að síður af skarið, sem þýðir að hvalveiðum verður haldið áfram út kjörtímabilið og vel ríflega það.

Sjávarútvegsráðherra segir að ákvörðunin byggist á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, en jafnframt hafi hann haft hliðsjón af nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða.

Hafrannsóknastofnun ráðleggur að árlegar veiðar á tímabilinu 2018–2025 verði að hámarki 161 langreyður á veiðisvæðinu Austur-Grænland/Vestur-Ísland og að hámarki 48 dýr á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar og 217 hrefnur á íslenska landgrunnssvæðinu. 

Ráðgjöf sína byggir stofnunin á veiðistjórnunarlíkani vísindanefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (IWC), sem er eitt það varfærnasta sem þróað hefur verið fyrir nýtingu á nokkrum dýrastofni í heiminum.

Síðan hvalatalningar hófust 1987 hefur langreyði fjölgað jafnt og þétt við Ísland. Við síðustu talningu 2015 var fjöldinn á skilgreindu stofnsvæði (Mið-Norður-Atlantshaf) metinn um 37 þúsund dýr sem jafngildir um þreföldun frá 1987, að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

„Hrefnu hefur fækkað mikið á grunnsævi við Ísland frá síðustu aldamótum. Ekki er þó talið að stofninn hafi minnkað heldur fremur að útbreiðslan hafi færst norður vegna minna fæðuframboðs hér á sumrin (síli og loðna). Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar tekur tillit til þessarar þróunar í útbreiðslu hrefnustofnsins,“ segir þar einnig.

Forsætisráðherra ekki hrifinn af hvalveiðum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í fréttum Stöðvar 2 í fyrrasumar, að þegar veiðum þessa fimm ára tímabils yrði lokið myndi fara fram úttekt á efnahagslegum, umhverfislegum og samfélagslegum þáttum hvalveiða.

„Það verður engin ný ákvörðun tekin fyrr en við erum komin með faglegan grundvöll fyrir því hvort ástæða er til að halda þessum veiðum áfram,“ segir Katrín, sem kvaðst ekki hrifin af hvalveiðum.

„Mín skoðun liggur alveg fyrir. Ég hef ekki talið skynsamlegt að halda þessum veiðum áfram,“ sagði forsætisráðherra.