Kristrún boðar uppstokkun á þingliði breyttrar Samfylkingar

Samfylgingarfólk fjölmennti í 1. maí kaffi í Iðnó.

„Við erum stolt af breyttri Samfylkingu. Og næsta haust, þegar við klárum vinnuna um húsnæðis- og kjaramál, þá verðum við svo sannarlega reiðubúin málefnalega – og tilbúin til framkvæmda frá fyrsta degi í nýrri ríkisstjórn, fáum við til þess umboð í kosningum,“ sagði Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkinnar á ræðu í tilefni af 1. maí í Iðnó í dag. Þar tjáði hún sig meðal annars í fyrsta sinn um val á framboðslista Samfylkingar sem hún hefur ekki gert til þessa. Mikilvægt sé að framboðslistar flokksins endurspegli breytta Samfylkingu og Ísland allt.

Greinilegt er að Kristrún hefur eins og fleiri, áhyggjur af minnkandi tengslum verkalýðshreyfingarinnar og vinstri væng stjórnmálanna hér á landi, sem er á skjön við stöðu sambærilegra jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndunum. Og hún boðar breytinga og sendir um leið bein skilaboð inn í þingflokk sinn um að sæti núverandi þingmanna flokksins séu allt annað en föst í hendi. En illa geymt leyndarmál í íslenskum stjórnmálum er, að núverandi þingmenn Samfylkingarinnar séu margir hverjir mun síður á bandi formannsins en almennir flokksmenn og kjósendur.

„Þetta leiðir okkur beint að næsta verkefni. Ábyrgð okkar er mikil.Við vitum að fjöldi fólks um land allt leyfir sér nú að vona að þetta gangi upp hjá Samfylkingunni: að okkur takist að endurreisa velferðarkerfið, að okkur takist að lyfta innviðum landsins, að okkur takist að koma Íslandi aftur á rétta braut – eins og við ætlum okkur að gera.

Þetta fólk sér að málefnastaðan er sterk og styrkist með hverju útspili, því líkar verklagið – en það veit líka að næsta verk verður að manna liðið: að stilla upp framboðslistum sem endurspegla þessa breyttu Samfylkingu – breiðari flokk, stærri flokk, klassískan jafnaðarflokk með stjórnfestu – stjórnmálaflokk sem stendur þétt með þjóð sinni, við bak hins vinnandi manns, og leggur ofuráherslu á kjör, velferð og efnahag almennings.

Hvaða fólki teflum við þá fram til Alþingis? Þetta er eitthvað sem er mikið spáð í og spekúlerað – en við höfum ekki tjáð okkur um til þessa.

Ég vil lýsa því yfir hér með: Samfylkingin vill hinn almenna launamann á þing – fólk með sterkar rætur í nærsamfélagi sínu og sterka tengingu við almenning. Þingflokkur Samfylkingar á að endurspegla samfélagið sem við þjónum – og fólkið í landinu á að geta séð sig í okkar fulltrúum. Þess vegna segi ég: Við viljum fólk með fjölbreytta reynslu úr íslensku atvinnulífi – og já, takk: fólk úr verkalýðshreyfingunni.

Það er ekki nóg að gera kröfur í kjarasamningum á nokkurra ára fresti. Við verðum að móta samfélagið okkar, með beinum hætti, yfir lengri tíma – og þetta er besta leiðin til þess.

Samfylkingin er í grunninn flokkur alþýðu og verkalýðs – og núna er tækifærið: Við verðum að koma til baka, sterkari og samstilltari en nokkru sinni fyrr – til að ná þeim árangri sem við höfum einsett okkur að ná og til að standa undir væntingum fjölda fólks, víðs vegar um landið, sem vonar og reiðir sig á að okkur takist þetta.

Eins og ég sagði á flokksstjórnarfundinum á Laugarbakka, þarsíðustu helgi: Við megum ekki bregðast fólki núna. Það er bara of mikið í húfi fyrir of marga – of langur tími af of litlum árangri í íslenskum stjórnmálum.

Kæru vinir, það er þess vegna sem það skiptir öllu máli að okkur takist vel til við þetta stóra verkefni – og að Samfylkingin stilli upp sterkum framboðslistum í öllum kjördæmum. Við viljum breidd og fjölbreytileika sem endurspeglar Ísland allt – ekki bara hinar skrifandi stéttir. Þótt hagfræðingar, lögfræðingar og stjórnmálafræðingar geti verið ágætir þá er allt gott í hófi, og það segi ég nú bara sjálf sem hagfræðingur.

Við þurfum einfaldlega fólk með alls konar bakgrunn – án þess að ég fari að telja upp starfsstéttir. Alveg eins og vera ber í stórum jafnaðarflokki sem býður sig fram til að stjórna landinu.

Og kæru félagar, það fór ekki hátt en á flokksstjórnarfundinum á Laugarbakka stigum við eitt skref í þessa átt, þar sem við breyttum reglum um val á framboðslista Samfylkingarinnar. Með því að opna á svokölluð leiðtogaprófkjör og skerpa á reglum um að hægt sé að fara blandaða leið þar sem yrði til dæmis kosið í 1. sæti eða 1. og 2. sæti í prófkjöri en að svo taki við kjörfundur eða uppstilling. Þannig yrði tryggt að markmið okkar náist um breidd og fjölbreytaleika á framboðslistum.

Í þessari ákvörðun flokksstjórnar felast skilaboð og ég tel að vel fari á því að almennir flokksfélagar Samfylkingarinnar og stuðningsmenn geti kosið sér forystufólk – oddvita á framboðslistum – í prófkjöri. En að svo taki við annað ferli þar sem gætt er að fleiri sjónarmiðum. Það virðist að minnsta kosti vera heppileg leið á þessum tímapunkti í endurreisn Samfylkingarinnar, þó að auðvitað geti mismunandi kjördæmi valið að fara mismunandi leiðir.

Þetta snýst um að stilla upp sterku teymi – efni í þingflokk sem endurspeglar samfélagið sem við þjónum, og þar sem fólkið í landinu getur séð sig í okkar fulltrúum. Þetta er ekki bara einhver leikur eða samkeppni einstaklinga um stök sæti. Heildarmyndin skiptir máli,“ sagði Kristrún ennfremur.

Lesa má ræðu Kristrúnar í heild sinni hér.