Kristrún hefur flokkinn með sér í breyttri útlendingastefnu

Kristrún Frostadóttir flutti ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á Hótel Laugabakka í Miðfirði í dag.

Staðfest var í kvöld, að Samfylkingin stendur á bak við formann sinn Kristrúnu Frostadóttur í breyttri nálgun í útlendingamálunum. Tillögu fimm flokksmanna sem fór gegn yfirlýsingum formannsins var vísað frá á fundi flokksstjórnar í Miðfirði í kvöld, en þar var varað við hugmyndum um lokað búsetuúrræði, breytingum á rétti til fjölskyldusameiningar mótmælt og áhersla lögð á að mannúð væri lykilhugtak í þessum málaflokki og varað við hörku og aukinni ófyrirleitni gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd.

„Samfylkingin geldur mikinn varhug við hugmyndum í fyrirliggjandi frumvarpi dómsmálaráðherra til breytinga á útlendingalögum um að setja á stofn svokallað “lokað búsetuúrræði”. Varðhaldsbúðir af því tagi eru ómannúðlegar í eðli sínu og hafa orðið sjálfstætt andlag útlendingaandúðar í Evrópu,“ sagði í tillögu þeirra Alexöndru Ýr van Erven, Auðar Ölfu Ólafsdóttur, Sabine Leskopf, Vilhjálms Þorsteinssonar og Þorbjargar Þorvaldsdóttur, sem var vísað frá.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, blandaði sér í umræður um hælisleitendur í febrúar sl. með því að taka undir þau sjónarmið, að núgildandi hælisleitendakerfi væri bæði „ósjálfbært og ósanngjarnt“ og nauðsynlegt sé að eiga „hreinskiptið samtal“ um það hvernig því skuli háttað til lengri tíma. Hún sagði að horfa þurfi til þess, að þeir sem að komast til Íslands, séu líklega ekki endilega það fólk sem að er í sárastri neyð og nefndi í því samhengi að mögulega sé betra að samþykkja fleiri kvótaflóttamenn.

Hún kvaðst hafa skilning á áformum Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um lokuð búsetuúrræði og þau ættu skilið að fá þinglega meðferð og það að virða ekki úrskurði þurfi að sæta afleiðingum. Hún sagði að út frá jafnaðarsjónarmiðinu sé nauðsynlegt að verja kerfin og að það sé ekki hægt að reka velferðarríki án lokaðra kerfa og landamæra. Því sé ekki raunhæft að Ísland skeri sig úr er varðar reglur á öðrum Norðurlöndum.

Afstaða Kristrúnar í hælisleitendamálum, sem sætti miklum, var rædd í hlaðvarpinu Ein Pæling sem Þórarinn Hjartarson stýrir.