Kuldametið hér á landi er -38° í Möðrudal í janúar 1918

Norska veðurstofan segir á vef sínum í dag frá norræn kuldametum, enda snjóþungt og kalt þar í landi um þessar mundir.

„Ég veit að þetta er mjög smásmugulegt en ég tók strax eftir tölunni fyrir Ísland, -37,9°C, þegar skráð met í öllum bókum hér er 38,0°C. Fyrri talan ratar sennilega inn í norræna veðurgagnagrunna beint úr Meteorologisk Aarbog, sem Danska Veðurstofan gaf út hér fram yfir fullveldið. Tímaritið Veðráttan tók síðan við. Klárlega mældust -38,0°C í Möðrudal kl. 14 þ. 21. janúar 1918. Líklega einnig á Grímsstöðum, en óvissan er aðeins meiri þar,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðufræðingur á veðursíðu sinni á fésbókinni.

Frostaveturinn mikli

Veturinn 1917-1918 er á Íslandi kallaður Frostaveturinn mikli, en þá gerði mikla kuldatíð. Í janúar 1918 fór frost víða á landinu niður fyrir -30°C. Hafís varð víða landfastur og rak hann talsvert suður fyrir land og lokaði siglingaleiðum fram í febrúar.

Í byrjun janúar árið 1918, gerði miklar frosthörkur hér á landi. Frostið, sem náði allt að -38 stigum, stóð linnulaust allan mánuðinn. Hafís lagði að ströndum allt frá Vestfjörðum, eftir öllu Norðurlandi og stærstum hluta Austfjarða. Húnaflóinn fylltist af hafís og allir firðir sem að honum liggja.

Í janúar kólnaði mjög í veðri og fór að snjóa á Norðurlandi. Klukkan sjö um morguninn var aðeins eins stigs frost í Reykjavík í alskýjuðu veðri og norðvestanátt en frostið var komið niður í -7 stig klukkan 17 síðdegis. Í Grímsey var hins vegar strax klukkan átta komið 19 stiga frost í snjókomu og fór brátt í -20 gráður á celsíus. Að kvöldi þess 9. var komið grimmdarfrost. Á Raufarhöfn var frostið 22 stig og daginn eftir var sagt að við Reykjahlíð við Mývatn væri stórhríð og 27 stiga frost. Í Reykjavík var frostið í kringum 16 stig og næsta dag var frostið um 20 stig og norðan stormur.

Mánudaginn 21. var frostið í Reykjavík 24,5 stig klukkan 7 að morgni í logni og heiðskíru veðri en á Möðrudal á Fjöllum mældist það 38 stig. Þetta er mesta frost sem nokkurn tíma hefur mælst á Íslandi. Í Stykkishólmi fór frostið í 29,7 stig, á Ísafirði 28 stig, 32,5 á Akureyri, 30,8 í Grímsey og 26,0 á Seyðisfirði.

Snjókoma var víða um land þann 24. þegar lægð gekk yfir landið og sums staðar var hvasst. Um morguninn var loks orðið frostlaust í Reykjavík í fyrsta sinn síðan 4. janúar.

Þeir sem vilja skoða þetta nánar geta kynnt sér nákvæma skráningu og álestur mæla þessa daga fyrir næstum 101 ári í umfjöllun Trausta Jónssonar á vef Veðurstofunnar.