Eitt stærsta prinsippmálið sem Alþingi fjallar nú um er ótímabundin úthlutun aflahlutdeildar í makríl. Málið er stórt í sniðum fyrir þá sök að nú er verið að úthluta aflahlutdeild í fyrsta sinn í nýrri tegund.
Þetta segir Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðherra, í nýjum pistli á vef Hringbrautar. Hann bendir á að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi lagt á dögunum fram tillögu að nýju auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Það feli ekki í sér neinar breytingar á ríkjandi skipan mála en haldi opnum möguleika á að tillögur auðlindanefndar Jóhannesar Nordal um gjald fyrir tímabundin afnot verði ákveðið í almennri löggjöf.
„Makrílfrumvarp ríkisstjórnarinnar er því endanleg og formleg staðfesting á því að VG hafnar þeirri hugmyndafræðilegu nálgun auðlindanefndar sem allir flokkar voru sammála um á sínum tíma. VG er að kúvenda í einu stærsta prinsipp máli íslenskra stjórnmála síðustu tvo áratugi. Að því leyti markar makrílfrumvarpið þáttaskil,“ segir Þorsteinn.
Hann segir að makrílfrumvarpið sé ekki sakleysislegt sjálfsafgreiðslufrumvarp. Tímabundnar aflaheimildir séu satt best að segja forsenda þess að unnt sé að tala um þjóðareign í raun.
Vandinn er að Framsókn hefur svo lítil áhrif í stjórnarsamstarfinu að hún getur ekki knúið fram málamiðlanir.
„Andstaða VG gegn virkum lagaákvæðum til að tryggja þjóðareign með tímabundinni aflahlutdeild virðist vera afgerandi og rótföst. Líklegra er að í frjálslyndari armi Sjálfstæðisflokksins megi finna skilning á því að tímabundin aflahlutdeild sé jafnt í hag útgerða sem þjóðarinnar.
Staðan er sú að hugsanlega verður búið að festa ótímabundna aflahlutdeild svo í sessi að óvissu gæti verið undirorpið hvort unnt verði að gera breytingar á næsta kjörtímabili. Makrílfrumvarpið er því ekkert smámál,“ bætir Þorsteinn við og nefnir að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, þurfi sterkari stuðning í skoðanakönnunum til að ná fram málamiðlunum.
„Vandinn er að Framsókn hefur svo lítil áhrif í stjórnarsamstarfinu að hún getur ekki knúið fram málamiðlanir. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki einu sinni tilefni til að hugsa um málamiðlun þegar VG tekur svo einarða prinsipp afstöðu gegn og Framsókn er í svo veikri stöðu.“