Kynntu þrettán fjármagnaðar breytingatillögur

Frá blaðamannafundi Samfylkingarinnar í dag: Formaður flokksins, Logi Einarsson, ásamt fulltrúum flokksins í fjárlaganefnd, þeim Ágústi Ólafi Ágústssyni og Oddnýju Harðardóttur.

Samfylkingin kynnti á blaðamannafundi í morgun 13 breytingartillögur við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020 upp á 20 milljarða. Tillögur Samfylkingarinnar eru að öllu leyti fjármagnaðar, að því er forystumenn flokksins sögðu á fundinum.

„Fjárlagafrumvarpið opinberar vanmátt ríkisstjórnarinnar til að takast á við ójöfnuð annars vegar og framtíðina hins vegar. Félagslegir innviðir samfélagsins eru vanræktir, heilbrigðisstofnanir og framhaldsskólar fá raunlækkanir og barnafólk og örykjar skildir eftir. Í stað þess að styrkja tekjustofna í efnahagsuppgangi og búa í haginn er nú gerð aðhaldskrafa á opinbera grunnþjónustu. Samfylkingin lýsir þar að auki yfir vonbrigðum með metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum en einungis 2% af fjárlögum er ráðstafað í umhverfismál,“ segir í yfirlýsingu frá Samfylkingunni.

„Við leggjum til breytingar til að gera fjárlögin framsæknari. Tillögurnar snúa annars vegar að því að sækja fram; á sviði menntunar, nýsköpunar og í loftslagsmálum. Hins vegar snúa þær að því að verja velferð almennings; barnafjölskyldur, heilbrigðisþjónustu og þau sem standa höllum fæti,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Meðal tillagna Samfylkingarinnar eru breytingartillögur upp á 10 milljarða til að sækja fram á sviði menntunar, nýsköpunar og loftslagsbreytinga. Fjórir milljarðar króna eru settir í aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, einn milljarður í rannsóknir og þróun og annar milljarður í nýsköpun og skapandi greinar.

Þá gera tillögur Samfylkingarinnar fyrir milljarði í viðbót í almenningssamgöngur og tíu milljörðum í velferðarkerfið, t.d. helmingi meiri aukningu í barnabætur og flýtingu fæðingarorlofs.

Tillögurnar, sem telja 20 milljarða kr. breytingu, yrðu fjármagnaðar m.a. með auknum tekjum af fiskveiðiauðlindinni (4ma), tekjutengdum auðlegðarskatti (6ma), kolefnisgjaldi (1ma), hækkun fjármagnstekjuskatts (4ma) og skattaeftirliti (5ma).

Aukinheldur birtu forystumenn Samfylkingarinnar tíu atriða lista yfir vondar fréttir að þeirra mati í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar:

  1. Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskólinn og Háskólinn á Akureyri fá nánast sömu raunupphæð og í fyrra. Hjá framhaldsskólum er beinlínis lækkun á heildarfjármagni milli ára. Eina stórsóknin í menntamálum virðist vera í yfirlýsingum ráðherrans.
  2. Þrátt fyrir augljósa þörf hjá Landspítalanum vill ríkisstjórnin ná auknum fjármunum „úr“ heilbrigðiskerfinu með aðhaldi. Á meðan standa yfir „umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir á Landspítalanum“ að sögn forstjóra spítalans. Þá ríkir ófremdarástand á bráðamóttökunni og fjöldi eldri borgara „býr“ á spítalanum vegna skorts á úrræðum.
  3. Veiðileyfagjöldin lækka meira á næsta ári en til stóð. Síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum hefur veiðileyfagjaldið lækkað um meira en helming og verður 5 milljarðar. Samkvæmt lögum eiga veiðileyfagjöld m.a. að mæta kostnaði sem ríkið verður fyrir vegna greinarinnar s.s. vegna eftirlits, rannsókna og stjórnunar. Nú vill svo til að kostnaður hins opinbera er 5,1 milljarðar eða hærri en það sem veiðileyfagjöldin verða. Veiðileyfagjaldið er því orðið það lágt að það stendur ekki undir þeim kostnaði sem skattgreiðendur taka á sig vegna þjónustu hins opinbera við sjálfa atvinnugreinina. Gjaldið sem útgerðarmenn þurfa að greiða fyrir aðgang að þessari auðlind, sem þeir eiga ekki heldur þjóðin samkvæmt lögum, er orðið að engu. Og í raun eiga skattgreiðendur nú að borga með stórútgerðinni. Með þessari breytingu verður veiðileyfagjaldið orðið lægra en tóbaksgjaldið. Stangveiðimenn greiddu svipaða upphæð fyrir veiðileyfi í vötnum og ám og það sem útgerðarmenn þurfa að greiða á næsta ári fyrir aðgang að einum bestu fiskimiðum jarðar. Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að frá árinu 2010 hafa  arðgreiðslur til útgerðarmanna verið um 100 milljarðar kr. Og þá hefur hagur sjávarútvegarins (aukið eigið fé og arðgreiðslur) vænkast um 450 milljarða króna á einum áratug. Því til viðbótar sjáum við að 1% landsmanna á meiri hreinar eignir en 80% landsmanna og yfir 40% af nýjum auð sem hefur myndast á Íslandi síðan 2010 hefur endað hjá ríkustu 10% landsmanna. Stór hluti af þessu fólki eru stórútgerðarmenn.
  4. Afnám kr. á móti kr. gagnvart öryrkjum er ekki fjármagnað í frumvarpinu. Enn eru öryrkjar því látnir bíða eftir réttlætinu, sem Katrín Jakobsdóttir sagði í stjórnarandstöðu að þeir mættu alls ekki gera. Aldraðir fá ekkert sérstakt framlag umfram það sem er vegna fjölgunar í þeirra hópi og er rekstur nýrra hjúkrunarrýma ekki fjármagnaður til framtíðar. Þriðja árið í röð er rekstrarfé hjúkrunarrýma skert af hálfu ríkisins með aðhaldskröfu.
  5. Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar er lækkuð um tæp 30%. Framlög til Tækniþróunarsjóðs, Innviðasjóðs, Lýðheilsusjóðs, Sprotasjóðs, Rannsóknarsjóðs, Markáætlunar á sviði vísinda og tækni, Barnamenningarsjóðs og Jafnréttissjóðs lækka.
  6. Þessi ríkisstjórn leggur einnig til lækkun til hjálpartækja, lækkun til endurhæfingarþjónustu, lækkun til verndaðra vinnustaða og lækkun til vinnusamninga öryrkja
  7. Framlög til persónuverndar, skattrannsóknarstjóra, Ríkisendurskoðunar og almennrar löggæslu lækka. Færri lögreglumenn eru nú en fyrir 10 árum þrátt fyrir fimmföldun ferðamanna og íbúafjölgun á tímabilinu.
  8. Einungis er gert ráð fyrir að opinberir starfsmenn fái 3% launahækkun sem þýðir kjararýrnun til opinberra starfsmanna ef verðbólga fer yfir 3%.
  9. Umhverfismál fá aðeins 2% af fjárlögum. Þegar 98% fjárlaga fara í annað má velta fyrir sér hversu ofarlega umhverfismálin eru. Skógræktin fær lækkun á milli ára.
  10.   Þá er sérstök aðhaldskrafa á sjúkrahús, öldrunarstofnanir og skóla.