Kynt undir sundurleitni og varnaðarorð sérfræðinga hunsuð

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formanns Viðskiptaráðs, varaði við nýrri tegund af orðræðu hér á landi á Viðskiptaþingi sem fór fram í dag undir yfirskriftinni: „Skyggni nánast ekkert – forysta í heimi óvissu“.

„Hér á landi birtist þetta meðal annars í þeirri orðræðu sem ný verkalýðsforysta hefur tileinkað sér – að það sé stétt auðvaldsins sem haldi verkalýðnum niðri – neitað er að horfa til staðreynda, kynt er undir sundurleitni, meira er gert úr misskiptingu á Íslandi en efni standa til og varnaðarorð sérfræðinga eru hunsuð – þetta er orðræða sem við höfum ekki heyrt til fjölda ára.Við sjáum þetta einnig í jafnréttisbaráttunni, þar sem karlar eru ennþá ríkjandi sem forstjórar og stjórnendur fyrirtækja,“ sagði hún.

Hún sagði að þrátt fyrir eitt mesta hagvaxtar- og verðstöðugleikaskeið í sögu landsins, einstakan efnahagslegan árangur og alþjóðlegar samanburðartölur sem sýni bæði jafna og bætta stöðu landsmanna heilt á litið – ríki ekki sátt í landinu.

Hver er hvati einkaaðila til að taka áhættu til að skapa verðmæti hér á landi þegar við sjáum að ríkið hefur breitt út faðminn með auknum umsvifum og ítökum í atvinnustarfsemi landsins?

„Óróinn kristallast í pólaríseraðri umræðu á frétta- og samfélagsmiðlum landsins þar sem jaðardæmi eru notuð til að lýsa hinni almennu þróun og staðreyndir látnar víkja fyrir tilfinningum. Rauntölur um stöðu samfélagsins eru oftar en ekki slegnar út af borðinu og raddir skynseminnar fá æ minna pláss í umræðunni,“ sagði hún.

Hún velti því upp hvað þurfi að gera til að efla getu og vilja þeirra sem landið byggja til að auka verðmætasköpun og drífa áfram frekari hagvöxt og velferð.

„Hver er hvati einkaaðila til að taka áhættu til að skapa verðmæti hér á landi þegar við sjáum að ríkið hefur breitt út faðminn með auknum umsvifum og ítökum í atvinnustarfsemi landsins? Hugsum við til framtíðar, til lengri tíma en til næsta ársfjórðungs eða kosninga? Hafa leiðtogar í landinu náð að skapa þann trúverðugleika og þau gildi sem við viljum lifa eftir sem þjóð?

Nú sem aldrei fyrr er þörf fyrir leiðtoga sem hreyfa við samfélaginu. Leiðtoga sem skilja tilgang og samhengi hlutanna og geta málað þá mynd skýrt upp. Leiðtoga sem setja langtímastefnu og halda kúrs þó svo að á móti blási. Leiðtoga sem sjá ábyrgð sína sem samfélagslega en ekki einungis bundna fjárhagslegum mælikvörðum eða stjórnmálastöðu. Hér þarf því að taka inn þætti sem hlúa að mannauðnum og samfélaginu.

Þetta getur kallað á djarfar ákvarðanir – breytta nálgun og stjórnun,“ sagði formaður Viðskiptaráðs ennfremur.