„Ég hélt, í afar stuttan tíma, að hægt væri að treysta á Bjarna. Nei það er algjörlega fokið út í veður og vind,“ segir Geir Jón Þórisson, fv. yfirlögregluþjónn, í umræðuhópnum Orkan okkar á fésbókinni í tilefni af frétt Viljans frá í gær, þar sem kom fram að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telji ekkert valdaframsal eiga sér stað til Evrópusambandsins með innleiðingu þriðja orkupakkans.
Sagði Bjarni að innleiðingin gengi ekki gegn ályktun Sjálfstæðisflokksins á síðasta landsfundi og er óhætt að segja, að ekki séu allir sjálfstæðismenn sammála því mati formannsins.
Geir Jón hefur lengi verið virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins og var m.a. varaþingmaður flokksins og tók sæti á Alþingi.
„Ég lagði allt mitt trúss á Sjálfstæðisflokkinn í 50 ár en nú er sá tími liðinn. Kristilegt uppeldi mitt segir að ekki skal treysta þeim sem fara með falspár og því hefur mér ekki þóknast að fylgja þeim sem fara á svig við hið heilnæma orð. “ Latið ekki leggja á yður aftur ánauðar ok. “
Nú eru menn að fara út á hálan ís og það getum við ekki samþykkt,“ bætir hann við.
„Við erum með samþykkt orkupakka 3 að ganga fram fyrir skjöldu sem mun koma í bakið á okkur og þá verður aftur erfitt fyrir okkur að snúa til baka. Þetta er sannfæring mín og enginn fær henni breytt,“ segir hann.