Lágmarksframfærsla barns miðist við 75 þúsund krónur

„Þetta er viðmiðunartala sem er reiknuð út frá meðaltals neysluviðmiðum, núverandi kerfi gerir ráð fyrir að meðlagsgreiðandi borgi 34 þúsund og lögheimilisforeldrið jafnt á móti, þannig að 75 þúsund er nú ekkert langt frá því sem hefur verið,“ segir Hrefna Friðriksdóttir, lagaprófessor, í samtali við Viljann, en hún hefur aðstoðað dómsmálaráðuneytið við gerð tillögu að frumvarpi um breytingar á barnalögum, en drögin liggja nú inni á samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. 

Í meðlagsúrskurði, skv. drögunum, skuli miða við að lágmarksframfærslukostnaður barns sé 75 þúsund krónur, sem skipta skal milli foreldra í hlutfalli við allar skattskyldar tekjur eða aflahæfi beggja.

Ef meðlagsgreiðandi hefur umtalsverðar tekjur getur sýslumaður, að kröfu, úrskurðað meðlagsgreiðanda til greiðslu aukins meðlags.

Spurð hvort þetta verði ekki þungt fjárhagslega fyrir marga meðlagsgreiðendur, svaraði Hrefna að talan 75 þúsund krónur sé aðeins höfð til viðmiðunar, en geti hækkað eða lækkað miðað við ýmsar forsendur eins og tekjur, hlutfall umgengni og hvernig foreldrum semst sín á milli.

Sameiginleg ábyrgð beggja foreldra en meira frelsi

Tillaga að nýju kerfi byggi á sjónarmiðum um sameiginlega ábyrgð beggja foreldra á framfærslu barns, auknu frelsi foreldra til að semja um meðlag, og tilliti til kostnaðar af framfærslu barns, tekna beggja foreldra, umgengni foreldris sem barnið býr ekki hjá og barnabóta til lögheimilisforeldris við útreikning á tekjum þess.

Lögð er til heimild foreldra til að semja um skipta búsetu barns og umfangsmiklar breytingar á ákvæðum laganna um framfærslu barns og meðlag.

Í tillögunum eru:

• Nýtt ákvæði um heimild til að semja um skipta búsetu barns.
• Lögbundnar forsendur samninga foreldra um forsjá, búsetu og umgengni í viðeigandi lagaákvæðum.
• Nýtt ákvæði um samtal að frumkvæði barns.
• Skýrari ákvæði um rétt barns til að tjá sig.
• Gagngerar breytingar á ákvæðum um framfærslu og meðlag þar sem lögð er áhersla á aukið samningsfrelsi, lágmarksframfærslukostnað barns, tillit til tekna beggja foreldra, tillit til umgengni o.fl. 

Sýslumaður mun þurfa að staðfesta samning um búsetu barns og þurfa þá eftirfarandi forsendur að vera til staðar:

• Sameiginleg forsjá.
• Virkt samstarf foreldra.
• Sameiginleg ákvarðanataka.
• Nálægð heimila.
• Samkomulag um lögheimili barns og búsetuheimili barns.

Markmiðið með breytingunum er að stuðla að sátt og jafnari stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barns og ákveða að ala það upp saman á tveimur heimilum. Drögin hafa legið inni á samráðsgáttinni síðan 21. febrúar sl. og skv. upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu hafa enn engar umsagnir borist, en ráðuneytið vill ítreka að um drög sé að ræða og gætu tillögurnar því breyst áður en þær verða lagðar fram sem frumvarp að lögum.