Landið smám saman að lokast

Guðlaugur Þór, Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri og Lára Kristín Pálsdóttir sérfræðingur, á fundinum.

Möguleikar ferðalanga til að komast til síns heima á Norðurlöndunum og annars staðar eru að lokast einn af öðrum, því sífellt fleiri áætlunarferðir eru nú felldar niður og útlit fyrir að borgaraflugum, bæði á vegum Norðurlandanna og annarra ríkja, sé að fækka.

„Utanríkisþjónustur Norðurlandanna hafa ítrekað hvatt borgara sinna ríkja að flýta heimför með áætlunarflugi, eða veitt þeim upplýsingar og aðstoð við að komast í borgaraflug sem skipulögð hafa verið,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

„Við höfum tekið þátt í þessu samstarfi undanfarnar vikur og notið góðs af, því okkar fólk hefur fengið aðgang að neyðarflugi á vegum hinna Norðurlandanna og reyndar einnig annarra ríkja.“

Á annað hundrað Íslendingar og aðrir búsettir hér á landi hafa til þessa komist áleiðis til Íslands með borgaraflugi undanfarnar vikur.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittust í gær á fjarfundi eins og þau hafa gert undanfarnar vikur, vegna COVID-19 kórónuveirufaraldursins. Borgaraþjónustur ríkjanna hafa unnið náið saman að því að aðstoða norræna ferðalanga á fjarlægum stöðum, til dæmis með því að skipuleggja borgaraflug frá stöðum þar sem áætlunarflug hefur verið fellt niður.

Aukið norrænt samstarf

Utanríkisráðherrarnir fimm lýstu allir yfir mikilli ánægju og þakklæti fyrir það samstarf sem ráðuneyti þeirra hafa átt með sér undanfarnar vikur til að aðstoða norræna borgara.

„Þetta hefur verið mikil og fordæmalaus áskorun sem við höfum staðið frammi fyrir, en það er í aðstæðum sem þessum sem gildi og mikilvægi norrænnar samvinnu kemur hvað best í ljós,“ segir Guðlaugur Þór.

Á fundinum var einnig farið yfir stöðu COVID-19 faraldursins í hverju landi fyrir sig og nauðsyn þess að ríkisstjórnir Norðurlandanna hefðu með sér samráð þegar kemur að því að opna aftur landamæri og aflétta þeim ráðstöfunum og takmörkunum sem settar hafa verið á, að því er segir á vef utanríkisráðuneytisins.