Landlæknir Bandaríkjanna kennir fólki að útbúa sínar eigin andlitsgrímur

Nýjar upplýsingar sem benda til þess að fólk smitað af Kórónuveirunni, en er einkennalaust, geti borið veiruna til annarra hafa orðið til þess að Smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna og Embætti landlæknis þar í landi hafa hvatt almenning til þess að hylja andlit sín með dulum eða grímum á almannafæri.

Dr. Jerome Adams, landlæknir Bandaríkjanna, leggur áherslu á að almenningur eigi ekki að nota sérhannaðar andlitsgrímur sem ætlaðar séu heilbrigðisstarfsfólki. Skortur sé á þeim og mikilvægt að þær nýtist þar sem þörfin er mest, á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum.

Hins vegar hvetur landlæknirinn fólk til að útbúa sína eigin andlitsdulu á einfaldan máta, t.d. með því að brjóta saman venjulegan stuttermabol og nota tvær teygjur sitt hvoru megin til að festa duluna við eyrun.

Hefur bandaríska landlæknisembættið sent frá sér myndband, þar sem Dr. Adams skýrir með einföldum hætti hvernig hægt er að útbúa slíka dulu.

Segir hann að ekki aðeins gamlir stuttermabolir geti komið sér vel í þessum efnum; treflar, gömul handklæði og fleira í þeim dúr geri sama gagn.

Landlæknirinn mælir með því að fólk noti andlitsduluna á fjölförnum stöðum á borð við matvöruverslanir og leggur áherslu á að viðbúnaður af þessu tagi komi ekki í veg fyrir aðrar ráðstafanir á borð við fjarlægðarmörk milli fólks.

Kínversk stjórnvöld hafa hvatt til þess undanfarið, að önnur lönd fari að dæmi þeirra og hvetji almenning til að bera grímur. Það geti bæði varið fólk fyrir smiti og komið í veg fyrir að það smiti aðra, því margir geri sér enga grein fyrir að þeir séu smitaðir af veirunni, Covid-19.

Viljinn spurði Þórólf Guðnason sóttvarnalækni út í þessi nýjustu tíðindi á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Hann svaraði því til, að afstaða íslenskra sóttvarnayfirvalda væri enn sú að mæla ekki með notkun andlitsgríma, þar sem slíkt gæti gefið falskt öryggi. Sagði hann þá afstöðu vera í fullu samræmi við tilmæli Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. / Lögreglan.

Aðspurður hvort hann teldi líklegt að sú stofnun myndi endurskoða afstöðu sína í ljósi nýjustu upplýsinga, svaraði hann því til, að ef fram komi nýjar rannsóknir sem breyti þessari afstöðu þá kunni að koma til þess.