Landlæknir gefur út leiðbeiningar vegna kórónaveiru

Svona líta kórónaveirur út í smásjá. Mynd/Wikipedia

Athygli er vakin á upplýsingamiðlun sóttvarnalæknis vegna kórónaveirunnar (2019-nCoV) á vef embættis landlæknis. Þar eru upplýsingar til heilbrigðisstarfsfólks, leiðbeiningar og fræðsla fyrir almenning, upplýsingar og fræðsla tengd alþjóðaflugi og fleira. Sóttvarnalæknir mun birta nýjar og mikilvægar upplýsingar á vef embættisins eftir því sem efni standa til. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Þar er að finna upplýsingar á íslensku, ensku og á kínversku, fyrir kínverska flugfarþega.

Staðan á Íslandi og opinber viðbrögð

Opinber viðbrögð á Íslandi miðast við alvarleika hinnar nýju veiru í ljósi nýrra áreiðanlegra upplýsinga.

  • Undirbúningur á Íslandi er samkvæmt viðbragðsáætlunum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Í því felst að leiðbeiningar og áætlanir frá SARS-faraldrinum 2002 verða uppfærðar og viðbragðsaðilar upplýstir.
  • Leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna verða uppfærðar og gefnar út.
  • Gefnar verða út leiðbeiningar til almennings um hvernig eigi að nálgast heilbrigðiskerfið ef grunur vaknar um sýkingu af völdum hinnar nýju veiru.
  • Leiðbeiningar verða gefnar til ferðamanna um viðbrögð heilbrigðisyfirvalda á Íslandi og hvernig ferðamenn geti nálgast heilbrigðiskerfið hér á landi.
  • Á alþjóðlegum flugvöllum landsins verður unnið samkvæmt landsáætlun um sóttvarnir flugvalla.
  • Heilbrigðisstofnanir hafa verið hvattar til að uppfæra sínar viðbragðsáætlanir.
  • Ekki er ástæða til að hvetja til ferðabanns til Kína en ferðamenn eru hvattir til huga vel að sýkingavörnum
  • Ekki er ástæða til að skima farþega á flugvöllum hér á landi.

Sóttvarnalæknir birtir nýjar og mikilvægar upplýsingar á heimasíðu embættis landlæknis eins og þurfa þykir.

Hvað vitum við um kórónaveiruna 2019-nCoV?

Í lok desember 2019 bárust fregnir af alvarlegum lungnasýkingum í Wuhan-borg í Kína, þá af óþekktum orsökum. Í kjölfarið var staðfest að um áður óþekkt kórónaveiruafbrigði er að ræða, sem nú kallast 2019-nCoV. Sennilega er veiran upprunin í dýrum en hefur nú öðlast hæfileika til að sýkja menn. Staðfest er að veiran getur smitast manna á milli en óljóst er hversu smitandi hún er. Ekki er vitað hversu hátt hlutfall smitaðra fær alvarlega sýkingu eða hvaða dýr er upphaflegur hýsill veirunnar. Nánar

Er hægt að ruglast á kórónaveirusýkingu og inflúensu?

Einkenni Kórónaveiru sýkinga geta verið svipuð inflúensu í upphafi sjúkdóms. Einkenni inflúensunnar koma oftast snögglega og lýsa sér með hita, hósta, hálssærindum, höfuðverk, vöðvaverkjum og almennri vanlíðan. Kórónaveiran getur snögglega valdið neðri loftvegasýkingu með lungnabólu sem getur gert öndun erfiða, en leiðir sjaldnar til einkenna frá efri öndunarfærum eins og hálssærindum og kvefi. Nánar.

Kórónaveirur eru nokkuð algeng orsök kvefs og öndunarfærasýkinga almennt hjá mönnum en þegar ný afbrigði berast úr dýrum í menn er þekkt að kórónaveirusýkingar geta verið alvarlegar. Veikin hefur borist til annarra héraða Kína og út fyrir Kína með fólki með tengsl við Wuhan. Flest tilfelli utan Kína hafa komið upp í Asíu en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hafa hvatt sóttvarnayfirvöld um heim allan að gera ráðstafanir til að geta brugðist fljótt við ef veikin berst til fleiri landa.

Tilfelli sýkingarinnar skipta hundruðum, langflest í Wuhan-borg. Heilbrigðisstarfsfólk sem hefur sinnt sjúkum hefur smitast. Þeir einstaklingar sem hafa dáið hafa hingað til allir verið með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma.

Engin sérstök meðferð er til við kórónaveirusýkingum og ekki er til bóluefni gegn þessari veiki. Til að forðast smit vegna kórónuveiru, svipað og inflúensu, er mikilvægt að beita almennu hreinlæti, s.s. handþvotti og/eða handsprittun ef ekki er aðgengi að vatni og sápu.